146. löggjafarþing — 58. fundur,  24. apr. 2017.

kennaraskortur í samfélaginu.

[16:43]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Þann 28. febrúar 2017 klukkan 13:37 flutti ég hér ræðu um skort á kennurum. Ekkert hefur breyst síðan þá, nema mögulega er minni tími til að bregðast við þessum nútímavanda. Í fjármálaáætlun fyrir næstu fimm ár er einfaldlega sagt, með leyfi forseta:

„Nú er svo komið að háskólarnir ná ekki að brautskrá nægilega marga kennara til að mæta þörfum fyrir nýliðun á þessum skólastigum.“ Þ.e. leik-, grunn- og framhaldsskólastigum.

Einnig segir að upplýsingar liggi ekki fyrir til að hægt sé að setja markmið um bætta nýliðun kennara í kennsluréttindanámi. Ekki er staðan betri núna miðað við þær upplýsingar sem við þó höfum. Markmiðin þurfa ekki að vera flókin. Það væri t.d. hægt að setja markmið um hlutföll kennara með kennsluréttindi í kennslu í skólum og mögulega hlutfall þeirra sem starfa sem kennarar af öllum sem eru á starfsaldri með kennsluréttindi.

Nýútgefin skýrsla Ríkisendurskoðunar segir að ekki dugi að fjölga kennaranemum, einnig verði að ná þeim aftur inn í skólana sem eru þegar kennaramenntaðir. Annars verður alvarlegur kennaraskortur strax árið 2031. Með meiri fólksfjölgun er meiri þörf fyrir kennara. Þá þyrftu um 70% allra kennara að vera starfandi sem slíkir til að manna allar stöður. Í dag er það tæpur helmingur. Árið 2031 er ekki fjarlæg framtíð. Það tekur fimm ár að klára nám í dag. Vandamálið verður að leysast á þessu kjörtímabili.

Ég tek undir með hv. þm. Pawel Bartoszek, við þurfum að leita lausna. Ein þeirra gæti verið afmörkuð réttindi fyrir annað sérnám og styttra kennaranám. Það væri líka hægt að leita að kennurum meðal þeirra sem eru án kennsluréttinda. Það þarf að huga að launaþættinum. Þar tek ég undir með hv. þm. Valgerði Gunnarsdóttur.

Það er mikilvægt að hafa gott menntakerfi því að án menntaðra kennara erum við ekki með menntakerfi, hvort sem menntakerfið er í opinberum rekstri eða einkarekstri. Óháð því hvaðan við komum úr pólitíkinni þá hljótum við að geta verið sammála um það. Gott menntakerfi þarfnast kennara. Nemendur þarfnast kennara og virði góðs kennara verður ekki mælt í peningum. Það sem góður kennari skilur eftir sig er ómetanlegt.