146. löggjafarþing — 58. fundur,  24. apr. 2017.

kennaraskortur í samfélaginu.

[16:51]
Horfa

Nichole Leigh Mosty (Bf):

Virðulegi forseti. Mig langar að nota tækifærið til að ræða jafnrétti í tengslum við þróun kennaramenntunar. Ekki fyrir löngu var kynnt aðgerð til að fjölga karlmönnum á leikskólastigi. Samband íslenskra sveitarfélaga, menntavísindasvið Háskóla Íslands, kennaradeild Háskólans á Akureyri, Félag leikskólakennara og Félag stjórnenda leikskóla tóku saman höndum um verkefni sem ber heitið Karlar í yngri barna kennslu. Meginmarkmið verkefnisins er tvíþætt, annars vegar að vekja athygli ungra karla á starfi kennara í leikskólum og hins vegar að fjölga þeim í starfi. Verkefnið snýst um að ráða þrjá karlkyns verkefnisstjóra og veita þeim styrk að upphæð 1 millj. kr. til að hefja nám á meistarastigi haustið 2017 sem veitir þeim leyfisbréf til kennslu á leikskólastigi.

Við vitum öll að leikskólakennarastarfið er það sem hefur verið kallað „hefðbundið kvennastarf“. Sannleikurinn er hins vegar annars eðlis þar sem í samfélagi okkar eru bæði kyn jafn fær um að mennta yngstu kynslóðina. Það þarf einhver að taka af skarið og ryðja brautina. Hér eru menn að taka fyrstu skref í þá átt og spurning er hvort menntamálaráðuneytið er reiðubúið að halda áfram í þá átt.

Ég vil í lokin skilja eftir orð úr sameiginlegum hluta í aðalnámskrá leikskóla 2011, með leyfi forseta:

„Gæði menntunar og árangur skólakerfisins byggist fyrst og síðast á vel menntaðri og áhugasamri fagstétt kennara á öllum skólastigum. Fagmennska kennara byggist á sérfræðilegri starfsmenntun, þekkingu, viðhorfum og siðferði starfsins.“

Ekkert af þessum orðum er kynbundið og ég tel það vera á okkar ábyrgð að gera kennarastarfið eftirsóknaverðara fyrir bæði kyn í þeim tilgangi að efla skólastarf landinu.