146. löggjafarþing — 58. fundur,  24. apr. 2017.

kennaraskortur í samfélaginu.

[16:55]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin sem komin voru. Ég átta mig á því að þetta eru mjög margar spurningar og ég bætti við þær og fleiri hafa bætt þar inn í. Ég þakka hv. þingmönnum fyrir innleggið. Upp úr stendur virðing og kjör. Ætli það sé ekki það sem málið snýst að töluverðu leyti um? Kennarastarfið hefur ekki notið þeirrar virðingar sem það ætti að njóta. Ég hef talsvert lesið um hvernig þessum málum er háttað víða, þar á meðal hef ég lesið mikið um Finnland og finnska kennsluhætti. Þetta er það sem mér finnst standa upp úr.

Það er rétt hjá ráðherra, margt hefur orðið til þess að staðan er sú sem raun ber vitni, en við verðum að bregðast við hið fyrsta. Þess vegna er mikilvægt að niðurstaða náist tiltölulega fljótt svo hægt sé að innleiða þær breytingar sem gera þarf sem allra fyrst.

Mig langar líka að spyrja hæstv. ráðherra, af því að viðhorf kennara var nefnt hér, hvort við höfum tekið þátt í TALIS, sem er könnun um vinnuaðstæður kennara og skólaumhverfi, sem lögð er fyrir dæmigert úrtak kennara og skólastjórnenda. Þar er markmiðið að afla áreiðanlegra og samanburðarhæfra gagna til að móta og skilgreina stefnu um þróun kennarastarfsins. Í þessum könnunum heyrast raddir kennara og skólastjórnenda. Þar gætu leynst svör við mörgu af því sem ég og fleiri höfum spurt hér um.

Kennarar eru eftirsóttir starfskraftar. Kynjasjónarmiðin eru líka undir eins og hér hefur verið rakið og vert er að huga að. Ég held að allir vilji að börn þeirra hafi góða kennara. Það er krafa frá samfélaginu að þeir séu fagmenntaðir. Þess vegna hef ég ekki stutt það að námið verði stytt aftur. Ég tel hins vegar að það sé mjög mikilvægt að við finnum kennarastarfinu stað í launum, aðbúnaði og umhverfi í kringum kennsluna. Ég held að það sé það mikilvægasta (Forseti hringir.) sem við þurfum að takast á við.