146. löggjafarþing — 58. fundur,  24. apr. 2017.

húsnæðismál.

[17:13]
Horfa

Andri Þór Sturluson (P):

Frú forseti. Samfélag þar sem íbúarnir geta ekki fundið sér húsnæði er á mörkum þess að geta kallað sig samfélag. Íslenski fasteigna- og leigumarkaðurinn er algjörlega og gjörsamlega í klessu svo að maður tali bara íslensku. Hann útilokar ungt fólk og þá efnaminni, og þær lausnir sem stjórnmálamenn hafa hingað til komið með hafa oft verið verri en ekki neitt. Fjöldi Íslendinga getur ekki haldið sitt eigið heimili og eina raunhæfa úrræðið sem boðið er upp á er að búa heima hjá mömmu og pabba.

Efnameiri foreldrar, eins og t.d. við, geta keypt sér frið og heimilisró með því að aðstoða unga fólkið með eigin sparifé en það er staðfesting á því að kerfið er ónýtt. Við vitum hvert vandamálið er, lítið framboð eigna og samkeppni við erlenda ferðamenn sem mun hagstæðara er að leigja. Það þarf að stórauka framkvæmdir ef ætlunin er að koma böndum á húsnæðisverð en ekki bara gefa einhverjum stórtækum félögum í fasteignabraski aukið fóður til að kjamsa á.

Það að leigumarkaðurinn sé sprunginn og að eigið húsnæði aðeins fyrir þá efnameiri er að sjálfsögðu ekki hæstv. ráðherra Þorsteini Víglundssyni að kenna en verði ekki brugðist við með viðeigandi hætti og fólki gert kleift að búa hérna verður það honum að kenna. Hann tók ábyrgð á ástandinu þegar hann settist í ráðherrastólinn.

Það hefði verið svo miklu auðveldara að lyfta grettistaki í þessum málaflokki ef flokkur hæstv. ráðherra hefði ekki beinlínis tryggt þeim sem bera ábyrgð á ástandinu áframhaldandi valdasetu. Það hvernig komið er fyrir húsnæðismarkaðnum er annaðhvort gert með vilja Sjálfstæðisflokksins eða vegna vanhæfni hans við að reka hér samfélag. Ég styð engu að síður hæstv. ráðherra heils hugar í að ráðast á þetta risastóra vandamál.

Ef verkefnið er ríkisstjórn Íslands ofviða hafa sum fyrirtæki hér á landi mun skýrari sýn og meiri framkvæmdagleði en við höfum séð koma úr þessu húsi. Ríkisstjórnin getur ábyggilega fengið „plan“ lánað hjá IKEA um hvernig hægt sé að byggja skilvirkt og ódýrt og koma lagi á markaðinn.

Til að halda ríkisstjórninni og forsætisráðherra við efnið getum við kallað það plan „Bjarni byggir“ til að minna á að öðruvísi er hér ekkert sem heldur í unga fólkið.