146. löggjafarþing — 58. fundur,  24. apr. 2017.

húsnæðismál.

[17:25]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Þetta er mikilvæg umræða sem við eigum um húsnæðismál á Íslandi. Ég vil byrja á að taka undir það með hv. málshefjanda að ástandið á húsnæðismarkaði á Íslandi hefur um töluvert skeið verið afar slæmt. Ég held þetta séu ekki nein ný tíðindi, hvorki fyrir okkur í þessum sal né landsmönnum. Þess vegna kom það mér verulega á óvart þegar ríkisstjórnarsáttmálinn var kynntur að þar skyldi ekki vera fjallað um húsnæðismálin. Og það kemur mér aftur mjög á óvart í þeirri stefnu sem birtist í ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2018–2022 hvað í rauninni er verið að gera lítið varðandi húsnæðismálin. Þar á ekki að gefa í að mörgu leyti í húsnæðismálunum þar sem stofnframlög munu lækka eða jafnvel þurrkast út eftir þrjú ár. Vaxtabætur eiga að lækka og það mun vissulega koma mörgum illa. Það stendur bara mjög skýrum stöfum á bls. 70 í ríkisfjármálaáætluninni. Ég get því ekki séð að það standist skoðun að hæstv. ríkisstjórn eða hæstv. ráðherra setji húsnæðismálin í forgang í raun og veru. Það er ekki hægt að lesa út úr þeim plöggum sem liggja fyrir.

Hv. málshefjandi svo og hæstv. ráðherra töluðu um að vandinn væri fyrirséður. Þá verð ég, eins og ég geri held ég alltaf þegar við ræðum um húsnæðismál, að minna á mikilvægi þess að byggja samkvæmt stöðlum algildrar hönnunar því ef við horfum ekki til framtíðar í því að hvernig húsnæði við byggjum þá lendum við í vandræðum í framtíðinni vegna þess að það verður ekki til húsnæði sem hentar þjóð (Forseti hringir.) sem er að eldast og þarf húsnæði sem tekur mið af því. Þessi vísa verður held ég því miður ekki (Forseti hringir.) nógu oft kveðin í þessum ræðustól. Ég mun halda áfram að fara (Forseti hringir.) með hana þangað til ég sé þess stað að eftir þessu verði farið í raun.