146. löggjafarþing — 58. fundur,  24. apr. 2017.

húsnæðismál.

[17:28]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Mig langar að vísa í tillögur sem eru í nýlegri grein eftir Benedikt Sigurðarson, sem er framkvæmdastjóri Búfesta hsf. á Akureyri. Hann kemur með nokkrar tillögur sem ég hvet hæstv. ráðherra til þess að taka til skoðunar. Með leyfi forseta:

„Ný nálgun er því nauðsynleg til að auka íbúðaframboð og draga úr þenslu á markaðnum. Til bráðabirgða: Innleiða verður auknar kröfur um eiginfjárhlutfall kaupenda sem skuldsetja sig til íbúðakaupa á þenslusvæðum (miðsvæði höfuðborgarinnar) …“ Þá er hann að vísa í danskar reglur Fjármálaeftirlitsins frá því í ársbyrjun 2016.

Benedikt heldur áfram:

„Breyta þarf lögum varðandi eftirlit með leigumarkaði. Gera þarf kröfu til að félög sem starfa á leigumarkaði, við útleigu íbúða, verði skráð og undir eftirliti. Allir leigusamningar verði langtímaleigusamningar og innleitt verði leiguverðþak að sænskri/þýskri fyrirmynd.

Takmarka heimildir einstaklinga til að harka á leigumarkaði með íbúðir sem stofnaðar eru sem lögheimilisíbúðir, og skipulagsákvæði ráði því hvort íbúðum er ráðstafað sem leigu-/búsetuíbúðum eða sem eignaríbúðum. Íbúðareigendur hafi ekki sjálfdæmi um það hvort þeir breyta íbúð úr leiguíbúð í séreignaríbúð heldur verði það háð skipulagsákvörðunum sem sveitarstjórnir bera endanlega ábyrgð á.

Heimildir einstaklinga til að leigja íbúðir á almennum markaði verði almennt miðaðar við að leigja íbúð númer tvö eða þrjú í sama húsi og menn búa sjálfir. Fari fjöldi leiguíbúða í eigu sama aðila umfram þrjár skal viðkomandi gert að vista íbúðir umfram þann fjölda í skráðum leigufélögum/íbúðafélögum sem eru eftirlitsskyld og lúta reglum varðandi hámarksverðlagningu.“

Nú er ég næstum búin með tímann og er ekki einu sinni hálfnuð. En ég hvet hæstv. ráðherra til þess að lesa þessa grein sem er í Stundinni og ber titilinn (Forseti hringir.) „Not-For-Profit íbúðafélög neytenda þarf til að bregðast við markaðsbresti á húsnæðismarkaði“.

Ég vonast til þess að fá viðbrögð frá ráðherra, hvort hann hafi kynnt sér þær tillögur um úrræði sem komið hafa frá (Forseti hringir.) Búfesta og Búseta til þess að bregðast við neyðarástandi.