146. löggjafarþing — 58. fundur,  24. apr. 2017.

húsnæðismál.

[17:30]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég vil eins og aðrir þakka málshefjanda og hæstv. ráðherra fyrir að taka þessa umræðu hér í dag. Ég hef mikinn áhuga á þessu máli og hef fylgst með því í töluverðan tíma. Mig langar að lesa hér nokkrar fyrirsagnir úr fréttum:

„Aukin þensla á fasteignamarkaði á næstunni.“ Þetta frétt frá árinu 2004.

„Mikill hiti á fasteignamarkaði.“ Frétt frá árinu 2005.

„Þensla á húsnæðismarkaði var fyrirséð.“ Frá árinu 2008.

„100 milljarða ónotuð fjárfesting.“ Fyrirsögn frá árinu 2009.

Þegar við tölum um skort á fasteignum bendum við gjarnan á sveitarfélögin. Það er alveg rétt, það hefði gjarnan mátt deila út fleiri lóðum. Sérstaklega á það við um Reykjavík. En víða í kringum okkur hefur líka verið tilbúið deiliskipulag. Markaðurinn var bara ekki tilbúinn að fara af stað og byggja. Það voru ekki tæki, það voru ekki starfsmenn og númer eitt, tvö og þrjú var ekki fjármagn því að bankarnir vildu ekki lána fjármagn í uppbyggingu fasteigna á þessum markaði. Þess vegna stöndum við frammi fyrir þessu vandamáli núna. Og já, það var alveg fyrirséð. Það geta allir sagt sér að það tekur tíma að byggja íbúðir. Það var ekki farið af stað og gert eftir hrun. Auðvitað liggur vandinn að stórum hluta í því.

Hvað getum við gert? Talað er um aðgerðahóp. Það er gott og gilt. Við ættum kannski bara að taka hamar í hönd og fara að byggja. Það mundi einna helst leysa vandamálið.

Ég bendi einkum á þetta því að ég legg áherslu á að þetta er fjölþætt vandamál. Það eru alls konar hlutir sem ráða því að íbúðir skortir inn á markaðinn í dag. Auðvitað hafa leigufélögin líka verið stórtæk á síðustu misserum og keypt upp mikið af fasteignum í samkeppni við þá sem hafa viljað eignast fasteignir. En við viljum líka byggja upp hér öruggan leigumarkað, ekki satt? Þar af leiðandi er gott að það séu aðilar sem eru tilbúnir að koma inn á þann markað og fjárfesta. Það er bara hið besta mál.

Mig langar þó að benda á eitt sem ekki hefur komið fram í umræðunni hingað til og við þurfum sérstaklega að horfa til í þessum sal; það eru byggingarannsóknir og nýsköpun á þessum mikilvæga markaði. Við heyrum hér frétt eftir frétt um myglusveppi og annað. Þar (Forseti hringir.) held ég að við þurfum að spyrna við fótum og huga að því hvernig við stöndum okkur í þeim efnum.