146. löggjafarþing — 58. fundur,  24. apr. 2017.

húsnæðismál.

[17:33]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Húsnæðisstefna stjórnvalda á auðvitað að snúast um að allir hafi val um búsetuform, þ.e. að eiga húsnæði, leigja öruggt húsnæði á viðráðanlegu verði eða fara millileiðina og búa í húsnæðissamvinnufélögum. Það er mjög mikilvægt að hér á landi sé mótuð húsnæðisstefna, að eftirspurn og framboð sé greint á húsnæðismarkaði. Í þessum efnum er samstarf ríkis og sveitarfélaga um framboð lóða og tengda þætti afar mikilvægt. Það þarf að halda áfram uppbyggingu á almennu íbúðunum í krafti frumvarps sem samþykkt var á síðasta kjörtímabili og varð að lögum. Öll sú vinna var í mikilli samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga.

Það þarf að horfa á stuðning vegna kaupa á fyrstu fasteign og til þeirra sem misst hafa húsnæði. Úrræðið „fyrsta fasteign“ er til staðar en það hentar því miður ekki í öllum tilvikum og því langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hafi kynnt sér bresku leiðina varðandi húsnæðissparnað. Grunnhugmynd hennar er að aðstoða ungt fólk við sín fyrstu íbúðarkaup með opinberu mótframlagi við sparnað. Einstaklingar 16 ára og eldri sem hafa ekki átt hlut í fasteign geta stofnað húsnæðissparnaðarreikning sem lýtur sérstökum skilmálum í þessa veru. Í upphafi býðst reikningsstofnanda að setja fjármagn á reikning og greiða síðan mánaðarlegan sparnað. Innstæðueigendur fá skattlaust 25% mótframlag við sparnað sinn sem hefur lágmarksinnborgun en jafnframt hámark. Hvað finnst hæstv. ráðherra um þetta fyrirkomulag, bresku leiðina, ef hann hefur kynnt sér það?