146. löggjafarþing — 58. fundur,  24. apr. 2017.

húsnæðismál.

[17:34]
Horfa

Theodóra S. Þorsteinsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Það var komið inn á samráð við sveitarfélögin og Samband íslenskra sveitarfélaga og upplýst að einn áheyrnarfulltrúi frá sambandinu hefði verið í einhverjum hóp til undirbúnings á lögum um almennar íbúðir. Það var aldrei haft samband við t.d. Kópavog. (EyH: Það er rangt.) Það er rétt. (EyH: Það er rangt.) Nei, það er rangt. (Gripið fram í.) Nei, nei, nei, nei. Sveitarfélögin hafa verið gagnrýnd. En mig langar að koma inn á það sem hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir kom inn á, einmitt það að bankarnir voru ekki tilbúnir að fjármagna. 2011 fóru fyrstu íbúðirnar í gang. Þær voru fjármagnaðar með skiptivinnu. Varðandi það hversu margar íbúðir þarf að byggja á höfuðborgarsvæðinu hefur verið talað um 1.700–1.800 íbúðir á ári, uppsafnað erum við með 2.000 íbúðir. 2017 og 2018 er gert ráð fyrir 4.000 íbúðum í byggingu þannig að það mun klárlega ekki uppfylla þarfir á næstu tveimur árum. Það verður vonandi komið jafnvægi á markaðinn eftir þrjú til fjögur ár.

Mér finnst mikilvægt að ferðaþjónustan komi örlítið inn í þetta. Af því að ég hef tíma langar mig að nefna að gistileyfi 2 sem er útleiga til ferðamanna í atvinnuskyni er starfsemi sem hefur verið í íbúabyggð. Ég held að það væri góð leið að taka þá starfsemi út úr íbúahverfum. Sú tillaga hefur a.m.k. komið fram í nokkrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu, enda er talað um að 400–800 íbúðir séu í útleigu til ferðamanna. Ef við viljum gera eitthvað strax væri þetta ein leið til þess að koma á jafnvægi á skemmri tíma en þremur til fjórum árum.