146. löggjafarþing — 58. fundur,  24. apr. 2017.

húsnæðismál.

[17:37]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Aðgerðir í húsnæðismálum eru aðkallandi, eru eitt mikilvægasta efnahagsmálið og jafnframt eitt mikilvægasta velferðarmálið sem við stöndum frammi fyrir nú um stundir. Þróun fasteignaverðs á höfuðborgarsvæðinu er með ólíkindum og þúsundir ungs fólks eru í neyð á húsnæðismarkaðnum og munu verða á næstu árum ef það er rétt að það taki þrjú til fjögur ár að koma jafnvægi á markaðinn frá því sem nú er.

Við þekkjum flest fólk sem er fast í foreldrahúsum, hefur hrakist á milli leiguíbúða eða reynir með aðstoð skyldmenna að kaupa íbúðarhúsnæði sem það ræður engu að síður oft illa við að borga af. Einn vandinn er sá að leigufélögin hafa keppt við almenning um kaup á fasteignum og átt sinn þátt í hækkun bæði fasteigna- og leiguverðs. Unga fólkið verður undir í samkeppninni.

Þingflokkur Samfylkingarinnar hefur lagt fram þingsályktunartillögu um að hæstv. ríkisstjórn komi að uppbyggingu 1.000 leiguíbúða á ári frá og með árinu 2018 og að lágmarki næstu þrjú ár þar á eftir. Gengið er út frá því að aðkoma stjórnvalda verði á grundvelli laga um almennar íbúðir, nr. 52/2016. Aðkoma stjórnvalda að uppbyggingu og lausn vandans á húsnæðismarkaði er nauðsynleg til að koma ungu fólki og leigjendum í öruggt húsaskjól og einnig til þess að mæta kröfum stéttarfélaga um aukinn félagslegan stöðugleika.

Fyrir tilstuðlan stéttarfélaga náðist mikilvægur árangur við gerð kjarasamninga árið 2015, en það þarf að gera betur. Til að mæta eftirspurn eftir húsnæði þarf samkvæmt greiningum að byggja um 10.000 íbúðir fyrir árið 2019. Frekari hækkun á fasteignaverði er spáð sem mun auka enn á vandræði þeirra sem ekki eiga fasteignir. Stjórnvöld verða að tryggja að byggt verði húsnæði sem hentar barnafjölskyldum, ungu fólki og launafólki sem á ekki mikinn sparnað og hefur ekki notið góðs af hækkun húsnæðisverðs á liðnum árum.