146. löggjafarþing — 58. fundur,  24. apr. 2017.

húsnæðismál.

[17:41]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V):

Herra forseti. Ég þakka fyrir mjög góða umræðu hér í dag um þetta mikilvæga mál. Það að byggja upp samkeppnishæf lífskjör er og verður alltaf forgangsmál þessarar ríkisstjórnar. Það er talað mjög skýrt um það í stjórnarsáttmála, það er einmitt talað um vaxtaumhverfið sem við búum við, allt of hátt vaxtastig. Ég held að við getum öll verið sammála um það. Ég held að við verðum dæmd af aðgerðum okkar í húsnæðismálum en ekki hvað um þau stóð í stjórnarsáttmála, svo ég svari þeirri umræðu. Þar mun ekki skorta aðgerðaviljann.

Vandamálið er fyrst og fremst skortur. Þetta er markaðsvandamál, dæmigert vandamál mun meiri eftirspurnar en framboðs, og við þurfum að gera allt sem okkur er kleift til að örva framboð á komandi misserum og það í góðu samstarfi sveitarfélaga og ríkis. Þetta er neyðarástand sem þjónar engum tilgangi að reyna að benda á hverjir beri meiri ábyrgð eða minni, við þurfum bara að taka höndum saman um að leysa þetta.

Það hefur aldrei verið auðvelt að eignast fyrstu íbúð. Það var ekki auðvelt hér áður fyrr og það er fátt sem bendir til að það sé miklu erfiðara nú þegar horft er á hefðbundna mælikvarða eins og húsnæðisverð, launastig og vaxtaumhverfi. Þessi mikli skortur á húsnæði er hins vegar umhugsunarefni og það er líka umhugsunarefni hvort við gengum of langt þegar við girtum fyrir ýmsar leiðir eftir hrun með mun stífari kröfum um greiðslumat, lánsveð og annað þess háttar, hvort það reynist ungu fólki fjötur um fót við að komast inn á markaðinn að beita svipuðum úrræðum og við hin fengum að njóta á árunum fyrir hrun. Það er eitt af því sem má gjarnan skoða.

Hér hefur verið bent á fjölmörg atriði sem við munum að sjálfsögðu taka með okkur inn í þessa umræðu. Númer eitt, tvö og þrjú er auðvitað að taka á þeim mikla skortvanda sem er á húsnæðismarkaðnum í dag. Ég þakka mjög góða umræðu.