146. löggjafarþing — 58. fundur,  24. apr. 2017.

heimavist fyrir framhaldsskólanema.

275. mál
[17:44]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Það er viðeigandi að við höldum áfram að ræða um húsnæðisvandann, núna við hæstv. menntamálaráðherra. Þetta er hins vegar mjög afmarkað málefni sem snýr að vanda þess hóps sem er í stöðugri húsnæðisleit á höfuðborgarsvæðinu. Við ræðum mjög oft, eins og við gerðum í umræðunni um fyrstu kaupendur en mun sjaldnar um þennan hóp, ungt fólk sem flytur af landsbyggðinni til að læra við einhvern hinna fjölmörgu framhaldsskóla á höfuðborgarsvæðinu.

Það eru til heimavistir við framhaldsskólana, námsgarðar, en þær eru hins vegar allar við framhaldsskóla á landsbyggðinni, ekki á höfuðborgarsvæðinu. Ungmenni af landsbyggðinni og foreldrar þeirra þekkja mjög vel hversu erfitt getur verið að finna húsnæði á höfuðborgarsvæðinu. Þannig má segja að húsnæðisvandi þessa hóps hefjist strax við 16 ára aldur. Stundum er lausnin að ættingjar og vinafólk hýsi nemann. Einstaka foreldrar búa svo vel að geta jafnvel keypt íbúð fyrir barnið sitt.

Ég þekki þetta sjálf. Á sínum tíma bjó systir mín ýmist hjá mér eða bróður mínum meðan hún stundaði nám í framhaldsskóla á höfuðborgarsvæðinu en móðir mín býr úti á landi.

Með breytingum sem gerðar voru með lögum um húsnæðisbætur var tryggður réttur nemenda til húsnæðisbóta og sérstaks húsnæðisstuðnings. Hann takmarkaðist hins vegar við að um væri að ræða íbúðarhúsnæði sem fæli að lágmarki í sér svefnherbergi ásamt séreldhúsi eða séreldunaraðstöðu, sérsnyrtingu og baðaðstöðu. Það er undanþága frá þessari kröfu ef um er að ræða sambýli nemenda í heimavistum eða námsgörðum sem tengjast viðurkenndum menntastofnunum.

Því vil ég gjarnan fá að spyrja hæstv. ráðherra hvort og þá hvernig hann sjái fyrir sér að geta beitt sér í að bæta úr húsnæðisvanda námsmanna á landsbyggðinni sem sækja nám í framhaldsskólum á höfuðborgarsvæðinu. Staða þeirra sem sækja háskólanám hefur verið eilítið betri, ekki síst þeirra sem hafa sótt nám við Háskóla Íslands. Kæmi til greina að stuðla að byggingu eða stofnun heimavistar sem allir framhaldsskólarnir á höfuðborgarsvæðinu stæðu sameiginlega að í samstarfi við t.d. Byggingafélag námsmanna? Hefur verið skoðað að nýta hin nýju almennu íbúðakerfi til að byggja eða kaupa húsnæði fyrir heimavist á höfuðborgarsvæðinu líkt og nú hefur þegar verið gert með því að úthluta til nýbyggingar Háskólans í Reykjavík?