146. löggjafarþing — 58. fundur,  24. apr. 2017.

sálfræðiþjónusta í framhaldsskólum.

276. mál
[17:59]
Horfa

Einar Brynjólfsson (P):

Virðulegi forseti. Þetta er þörf umræða. Ég þakka fyrir hana. „Konur þjást, karlar deyja“ var fyrirsögn á erindi sem ég hlýddi á í Færeyjum í lok febrúar þar sem var einmitt fjallað um þetta mál.

Ég hjó eftir því áðan að hæstv. ráðherra talaði um nauðsyn þess að slík sálfræðiþjónusta væri hluti af heilsugæslustöðvunum. Ég er sammála honum að vissu marki. Þó tel ég mjög mikilvægt að starfsstöðvar þeirra sem sinna slíkri þjónustu við framhaldsskólanema séu í framhaldsskólunum. Það er algert grundvallaratriði að svo sé. Það veit ég af eigin reynslu sem kennari til 18 ára í íslenskum framhaldsskólum að nemendur leita sér frekar hjálpar innan húss. (Forseti hringir.) Þau eru þyngri og erfiðari skrefin ef þarf að fara milli húsa. Það er bara þannig.