146. löggjafarþing — 58. fundur,  24. apr. 2017.

efling verk- og iðnnáms.

277. mál
[18:13]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Í nýlegri skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að þrátt fyrir árleg fyrirheit um að efla verk- og iðnnám á framhaldsskólastigi hafa aðgerðir stjórnvalda ekki skilað þeim árangri sem stefnt var að með samþykkt laga um framhaldsskóla árið 2008. Miðað við skólaárið 2014–2015 hefur nemendum á verk- og starfsnámsbrautum raunar fækkað um 7% ef borið er saman við veturinn 2008–2009 og brautskráningum þeirra fækkað enn meira, eða um 18%.

Á sama tímabili hefur hlutfall nemenda á verk- og starfsnámsbrautum af heildarfjölda nemenda í framhaldsskólum lítið sem ekkert breyst en þeir eru að jafnaði um 30–32% þeirra.

Í skýrslunni beinir Ríkisendurskoðun ákveðnum ábendingum til hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra um að bregðast við þessu með þremur ábendingum:

1. Að einfalda þurfi og efla stjórnskipulag starfsréttindanáms.

2. Að tryggja þurfi skýra ábyrgð á vinnustaðanámi.

3. Efla þurfi náms- og starfsráðgjöf á grunn- og framhaldsskólastigi.

Fram kemur í skýrslunni að í byrjun þessa árs var aðeins búið að staðfesta níu námsbrautir af rúmlega 100 námsbrautum sem teljast til starfsnáms og fimm til viðbótar biðu staðfestingar. Ríkisendurskoðun bendir á þetta sem alvarlegan veikleika. Það megi setja stórt spurningarmerki við hvort ráðuneytið muni ná markmiðum sínum um að frá og með 1. janúar 2018 verði aðeins kennt eftir staðfestum námsbrautarlýsingum.

Spurt er líka hvort starfsgreinaráðin sem voru sett á með lagabreytingum 2008 hafi skilað sínu við að samræma og móta stefnu um verk- og iðnnám og hvert hlutverk nýrrar stofnunar, Menntamálastofnunar, eigi að vera í að tryggja gæði starfsnáms.

Einnig er bent á að ólíkt hefðbundnu bóknámi eru skólarnir ekki að lofa því að útskrifa nema sem fara í gegnum verknám, heldur fer hluti námsins fram á vinnustöðum. Eins og námið er núna bera nemendur sjálfir ábyrgð á að finna vinnustað. Það hefur ekki verið innleidd notkun ferilbóka á öllum stigum námsins. Að sama skapi er Vinnustaðanámssjóður enn mjög veikburða þótt bætt hafi verið aðeins í fjárveitingar í hann á síðustu tveimur árum.

Síðan þegar kemur að náms- og starfsráðgjöfinni er hvatt til þess að nemendum sé leiðbeint betur og þeim hjálpað að finna nám við hæfi, sem muni vonandi draga úr brotthvarfi og óhóflega löngum námstíma.

Ég nefndi líka í umræðunni um kennaraskort, og vil taka það upp hér líka, hvort ráðherrann hafi velt fyrir sér hinni áberandi kynjaskiptingu (Forseti hringir.) starfa og hvort það hafi að einhverju leyti áhrif á þá fækkun sem við höfum séð í starfsgreinunum að það er aðeins helmingur þjóðarinnar sem hefur áhuga á stórum hluta af verknáminu.

Hvernig hyggst ráðherrann bregðast við þessum ábendingum frá Ríkisendurskoðun?