146. löggjafarþing — 58. fundur,  24. apr. 2017.

efling verk- og iðnnáms.

277. mál
[18:16]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Í upphafi vil ég segja að ég hef þá sýn að starfsmenntun á Íslandi verði efld verulega á næstu misserum og árum. Ýmislegt hefur áunnist í málefnum starfsmenntunar að undanförnu og mikilvæg verkefni eru í vinnslu en eins og við vitum er allt stöðugum breytingum háð og stefnu þarf að aðlaga aðstæðum hverju sinni. Ég mun koma mínum stefnumálum á framfæri eftir því sem frekari undirbúningi stefnumótunar miðar fram.

Eins og hv. þingmanni og þingheimi öllum er kunnugt var fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2018–2022 nýlega lögð fram á þinginu. Í áætluninni eru sett fram þrjú meginmarkmið fyrir framhaldsskóla. Eitt þeirra er að nemendum bjóðist heildstætt og markvisst starfsnám. Þar er áréttað mikilvægi þess að starfsnám höfði bæði til yngri og eldri nemenda og að fleiri ljúki starfsnámi sem skili þeim vel undirbúnum fyrir fjölbreytt störf í atvinnulífinu og til áframhaldandi náms. Að því mun ég vinna. Ég legg áherslu á sem víðtækast samstarf og samstöðu allra sem koma að starfsnáminu. Það er nokkuð ljóst að það þarf að fara vel yfir umgjörð alla fyrir samvinnu atvinnulífsins, ráðuneytisins og skólanna. Þetta atriði er dregið mjög vel fram í þeirri skýrslu frá Ríkisendurskoðun um starfsmenntunina sem hv. fyrirspyrjandi nefndi þar sem m.a. er bent á óhagkvæmni í rekstri núverandi kerfis, nauðsynlega endurskoðun á hlutverki og fjölda starfsgreinaráða sem og vandamál við staðfestingu námsbrauta í starfsmenntun. Ef ég man rétt er tiltekið í skýrslunni að 300 einstaklingar komi með einhverjum hætti að því að forma þetta. Það segir sig sjálft að það tekur alveg óheyrilegan tíma að koma í gegn einhverjum breytingum í því.

Ég vil líka nefna hér að þegar er hafin gerð ferilbóka í starfsnámi í samvinnu við hlutaðeigandi aðila. Slíkar bækur munu verða eign hvers nemanda og öll starfsþjálfun hans á vinnustað og í skóla fyrir námstímann í heild sinni verður skráð þar. Stefnt er að því að innleiða ferilbækur á næstunni.

Erlendar úttektir á menntakerfinu hér á landi hafa bent á að kerfið bregst ekki nægilega vel við þörfum atvinnulífsins og að það sé óþarflega flókið fyrir nemendur sem lokið hafa starfsmenntun að komast yfir á háskólastig. Framhaldsnám að loknu starfsnámi í framhaldsskóla er mikilvægt vegna þess að æ flóknari tækni gerir auknar kröfur um kunnáttu og jafnframt sækjast nemendur sjálfir eftir aukinni hæfni. Án möguleika á framhaldsnámi er hætta á að nemendur líti á starfsnám sem blindgötu og sæki því síður í slíkt nám. Í ráðuneytinu er unnið að því í samstarfi við háskóla, framhaldsskóla og aðila vinnumarkaðarins að þróa starfsmenntun á háskólastigi, svokallað fagháskólanám, og byggja þannig brýr á milli framhaldsskóla sem bjóða upp á starfstengt viðbótarnám og háskóla og atvinnulífs. Þessi þróunarvinna felur einnig í sér að skilgreina raunfærnimat á háskólastigi og gera tillögu um innleiðingu þess. Á árinu 2017 mun ráðuneytið leggja til 100 millj. kr. í þróunarverkefni fagháskólanámsins.

Undir lok máls míns vil ég nefna tvennt sem mér finnst ástæða til að skoða sérstaklega. Annars vegar er að í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er endurskoðun á reiknilíkani fyrir deilingu opinberra framlaga til framhaldsskóla. Það þarf að fylgja eftir ábendingum Ríkisendurskoðunar um mikilvægi þess að reiknilíkan framhaldsskólanna nýtist sem virkt stjórn- og samskiptatæki ráðuneytis og skólanna og að það stuðli að jafnræði og sjálfsábyrgð skóla. Ég mun láta skoða stöðu og möguleika starfsnámsins sérstaklega í þessu samhengi. Hins vegar vil ég nefna að það er full ástæða til að athuga hvort ekki sé tímabært að hefja undirbúning að endurskoðun laga nr. 92/2008, um framhaldsskóla, sem eru frá árinu 2008. Þar yrði staða og stjórnsýsla starfsnámsins einnig tekin til sérstakrar athugunar.