146. löggjafarþing — 58. fundur,  24. apr. 2017.

efling verk- og iðnnáms.

277. mál
[18:23]
Horfa

Einar Brynjólfsson (P):

Virðulegur forseti. Fyrstu 11 ár starfsferils míns sem framhaldsskólakennari voru við verknámsskóla. Þá var alltaf talað um að það þyrfti að gera tvennt, annars vegar að endurskoða reiknilíkanið. 18 árum síðar hefur það enn ekki verið gert. Hins vegar var alltaf talað um að það þyrfti að efla starfs- og verknám. Í skýrslu frá Ríkisendurskoðun sem hér var minnst á áðan stendur m.a., með leyfi forseta:

„Þrátt fyrir áralöng fyrirheit um að efla starfsnám á framhaldsskólastigi hafa aðgerðir stjórnvalda ekki skilað þeim árangri sem stefnt var að þegar lög nr. 92/2008, um framhaldsskóla, voru samþykkt. Með þeim átti m.a. að efla verknám og ná fram sterkara samstarfi skóla, vinnustaða og atvinnulífsins í heild. Lögin áttu að verða starfsréttindanámi til framdráttar og opna skólum leið til að efla starfsnám og nám tengt þjónustugreinum. (Forseti hringir.) Það hefur ekki gengið eftir.“

Nú spyr ég hæstv. ráðherra: Hvaða líkur eru til þess að nú gangi eitthvað af þessum fyrirheitum eftir? Ég veit ekki betur en að Sjálfstæðisflokkurinn hafi haft menntamálaráðuneytið á sinni könnu undanfarna áratugi.