146. löggjafarþing — 58. fundur,  24. apr. 2017.

efling verk- og iðnnáms.

277. mál
[18:32]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við tölum öll á hátíðarstundum um mikilvægi iðnnáms og verknáms. En það hefur ekki skilað sér í verki, því miður, sama hvaða stjórnmálaflokkar hafa verið við völd, þótt einn hafi nú verið kannski allt of lengi við völd. En ég vona að núverandi ráðherra taki sig til og bretti upp ermar og að sá flokkur rísi undir merkjum í þeim efnum. Þegar skortir orðið fagmenntað fólk, iðnmenntað fólk, vítt og breitt um landið, sérstaklega víða á landsbyggðinni er þetta orðið mjög mikið vandamál. Framhaldsskólar á landsbyggðinni þurfa að vera samkeppnishæfir við framhaldsskóla hér á höfuðborgarsvæðinu. Þess vegna þarf að horfa til þess að það eru sveiflur í fjölda í bekkjardeildum sem þarf að mæta með (Forseti hringir.) öruggum fjárheimildum og tryggja líka tækjabúnað og annað því um líkt svo að nemendur haldi ekki áfram að sogast hingað á höfuðborgarsvæðið og iðnnám deyi út á landsbyggðinni. Það er óásættanlegt.