146. löggjafarþing — 58. fundur,  24. apr. 2017.

efling verk- og iðnnáms.

277. mál
[18:37]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Forseti. Fólk hefur komið víða við í þessari umræðu. Skrýtið að tala um að mánudagur sé ekki hátíðisdagur, þetta er dásamlegur dagur. Heil vinnuvika fram undan. Það er dásamlegt að eiga í vændum að fá að takast á við ný verkefni og áskoranir á hverjum einasta degi og margar hverju sinni. Ég þakka þessa umræðu og þigg með þökkum sömuleiðis allar góðar hugmyndir um það hvernig við getum gengið til þess verks sem lengi hefur staðið til af hálfu stjórnvalda og burt séð frá því hvaða stjórnmálaflokkur hefur verið við völd hverju sinni í menntamálaráðuneytinu. Allir þeir flokkar eiga sína sögu tengda því. Ég hef alla trú á að við munum í sameiningu koma fram breytingum í þá veru að eitthvert innihald sé í þeim yfirlýsingum sem þingið hefur margoft gefið í gegnum tíðina, og skólakerfið sömuleiðis, um að skjóta styrkari stoðum undir starfs- og verknám. Það er tími til kominn.

Varðandi það sem hér er spurt um, hvort ég hafi farið ofan í og kynnt mér til hlítar tillögu Pírata um starfsnám: Nei, ég hef ekki gert það. Ég viðurkenni það heils hugar. En ég geri ráð fyrir að allar slíkar hugmyndir komi til vinnslu og verði lagðar inn sem fóður í þá vinnu sem hafin er til undirbúnings því að koma þessum hugmyndum til framkvæmda sem snúa að verk- og starfsnámi.

Ég vil nefna sérstaklega, vegna orða síðustu ræðumanna, að við eigum ekkert að gleyma okkur í áhyggjum. Við höfum fulla getu til að vinna góð verk, Íslendingar, og höfum sýnt það í gegnum tíðina. Þegar gleðin hríslast niður eftir hrygg samþingmanns míns úr Norðausturkjördæmi vegna orða minna eigum við líka færi í því. Ég ætla að nefna hér sameiginlegan kunningja, einstakling sem unnið hefur við húsgagnabólstrun; hann sér tækifæri í að senda nemendur til útlanda til að sækja þekkingu og koma með hana heim. Það er ekki endilega allt fengið með því að rækta eingöngu heimagarðinn. Við þurfum líka stundum að sækja okkur vit, þekkingu og færni yfir Atlantsála.