146. löggjafarþing — 58. fundur,  24. apr. 2017.

yfirferð kosningalaga.

140. mál
[18:39]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Björn Leví Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Ég vona að ég fái góða þátttöku í umræðu um þetta mál því að það er gríðarlega mikilvægt. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er sérstaklega tekið fram að kosningalöggjöf eigi að yfirfara með það fyrir augum að hún verði einfaldari og miði að meira jafnræði í atkvæðavægi. Þá vil ég spyrja ráðherra: Hvernig hyggst ráðherra standa að vinnu með öllum flokkum að því að kosningalöggjöfin verði einfaldari og miði að meira jafnræði í atkvæðavægi? Þetta kemur til með að verða lykilatriði. Eins og heyra má á næstu spurningum munu breytingarnar verða einhverjum flokkum almennt í óhag.

Önnur spurning: Í hverju felst að mati ráðherra meira jafnræði í atkvæðavægi? Að þessu þarf sérstaklega að huga því að núverandi ríkisstjórn er með meiri hluta þingsæta þrátt fyrir að vera með minni hluta atkvæða. Það sem er enn furðulegra er að ríkisstjórnarflokkarnir samtals eru með færri atkvæði á bak við sig en stjórnarandstöðuflokkarnir samtals. Síðasta ríkisstjórn var til dæmis einungis með um 50% atkvæða á bak við sig en var, af einhverri undarlegri ástæðu, með um 60% þingsæta. Hinn sterki meiri hluti, eins og hann var kallaður, var með ákaflega veikt umboð. Þetta atriði, ef eitthvað, er það sem þarf hvað nauðsynlegast að laga. Það gengur ekki að svona mikill munur sé á umboði samkvæmt hlutfalli atkvæða og hlutfalli þingsæta, hvað þá að hægt sé að ná meirihlutavaldi með minni hluta atkvæða. Núverandi ríkisstjórn er með meirihlutavald og minni hluta atkvæða. Það er eins og liðið sem skoraði færri mörk hefði unnið leikinn.

Þriðja spurning: Hvað telur ráðherra þarfnast einföldunar í kosningalöggjöfinni? Beinist einföldunin að kjósandanum, flokkunum, frambjóðendum, öryggi kosninga, úrvinnslu gagna, úthlutun þingsæta, skiptingu kjördæma? Orðin í stjórnarsáttmálanum eru nefnilega eitthvað sem allir ættu að geta verið sammála um. En hvað liggur á bak við orðin? Hver er sameiginlegur skilningur stjórnarflokkanna á því hvað þetta þýðir?

Fjórða spurning: Mun yfirferð kosningalaga ná til fleiri þátta en þeirra sem vinnuhópur um endurskoðun kosningalaga lagði til að yrði breytt í drögum að frumvarpi sem hópurinn skilaði af sér í ágúst sl.? Ef svo er, til hvaða þátta? Þessi spurning tengist einfölduninni vegna þess að drög vinnuhópsins að frumvarpi um endurskoðun kosningalaga ásamt greinargerð er ekki endilega einföldun frá öllum bæjardyrum séð. Þetta er 300 blaðsíðna frumvarp og greinargerð.

En þrátt fyrir að allar spurningarnar séu mikilvægar er tíminn til að svara naumur. Ég vil því biðja ráðherra og aðra að forgangsraða svörum sínum eftir röð spurninga. Samvinna með öllum flokkum og jafnræði í atkvæðavægi eru spurningar sem er gríðarlega mikilvægt að svara skýrt og skilmerkilega. Ég vonast eftir góðri þátttöku. Þetta er, að því er ég tel, eitt af brýnustu málum sem Alþingi þarf að afgreiða á þessu kjörtímabili.