146. löggjafarþing — 58. fundur,  24. apr. 2017.

yfirferð kosningalaga.

140. mál
[18:48]
Horfa

Pawel Bartoszek (V):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að taka fram að það er fyrir fram ómögulegt í hlutfallskerfum með fjölflokka fyrirkomulagi að útiloka algerlega að það geti gerst að ákveðnir flokkahópar fái meiri hluta þingsæta með minni hluta atkvæða á bak við sig. Það má hins vegar minnka líkur á því verulega. Ég myndi styðja það.

Stefna Viðreisnar í þessum málum er skýr. Þar segir, með leyfi forseta:

„Ráðast þarf í nauðsynlegar breytingar til þess að tryggja að atkvæðisréttur allra landsmanna verði jafn óháð búsetu. Jafn atkvæðisréttur og jafnt vægi atkvæða er nauðsyn í lýðræðisríki.“

Þetta hefur ratað í stjórnarsáttmálann eins og hefur verið talað um. Ef einhver spyr mig hvað meira jafnræði þýðir er það í mínum huga eins mikið jafnræði og stjórnarskráin heimilar. Mér fannst frumvarp Viktors Orra Valgarðssonar og nokkurra annarra þingmanna gefa ákveðna rétta nálgun í þessu. Ég sá mér ekki fært að gerast meðflutningsmaður þar vegna ákveðinna tæknilegra úrlausnarefna og mér þótti líka réttast að við sem stjórnarþingmenn gefum þeirri vinnu sem mun fara fram ákveðið tækifæri í von um að hún skili árangri.