146. löggjafarþing — 58. fundur,  24. apr. 2017.

yfirferð kosningalaga.

140. mál
[18:49]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Það er margt sem mætti laga í kosningalögum. Til dæmis væri einföld breyting sem myndi hjálpa að flytja okkur úr d'Hondt-reglu yfir í reglu Sainte-Laguës sem er víðast notuð á Norðurlöndum. Það er líka atriði sem varðar úthlutun uppbótarþingsæta sem fylgir svokallaðri „biproportional apportionment“-reglu, með leyfi forseta, sem mætti kalla tvíhlutfallslega úthlutun. Balinski sannaði á sínum tíma að það er eingöngu eitt reiknirit sem uppfyllir þessa úthlutun. Við notum það ekki í kosningalögunum, að hluta til vegna þess að aðferð Balinskis þótti of flókin. Ég er hálfpartinn sammála því, hún er frekar flókin. En hún tryggir þó einhalla vöxt á sætaúthlutun sem við erum ekki viss um að hafi alltaf staðist eða geti alltaf staðist í öllum tilfellum.

Það eru margar aðrar minni háttar lagfæringar sem mætti gera en kannski eitt sem við ættum að taka skoðunar er að einfaldur kross í kassa er kannski (Forseti hringir.) heldur einfeldningsleg nálgun á að safna upplýsingum frá kjósendum um raunverulegan vilja þeirra. Við ættum kannski að íhuga einhvers konar forgangsröðunarnálgun.