146. löggjafarþing — 58. fundur,  24. apr. 2017.

yfirferð kosningalaga.

140. mál
[18:52]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Björn Leví Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Ég sakna nokkurra þingflokka í þessari umræðu. En ég vildi minnast á orð hæstv. ráðherra um lausnina varðandi jafnræði þar sem hún nefndi eitt kjördæmi. Jú, það er tvímælalaust lausn. Einmenningskjördæmi eru það ekki, langt í frá. Það er algerlega í hina áttina. Sá sem fær flest atkvæði gæti verið sami flokkurinn í öllum kjördæmum og fengið þannig alla þingmenn, alls ekki með meiri hluta atkvæða, hvað þá 100%.

Varðandi það sem hv. þm. Pawel Bartoszek segir um að ekki sé hægt að útiloka þetta algerlega þá er það ekki alveg satt. Það er alveg hægt að setja skilyrði sem slík, að það sé ákveðinn lausaþingmaður sem hverfi í raun og detti yfir á annan flokk ef meirihlutamyndun verður á þann hátt að hann er í stjórn með minni hluta atkvæða. Það er ekkert langt frá jöfnunarþingmanninum.

Ein hugmynd um hvað væri hægt að gera til að vinna betur að jafnræðisreglunni er að hafa fleiri jöfnunarþingmenn. Það hefur komið tillaga um að allir séu jöfnunarþingmenn.

Hvað varðar breytingarnar frá 1999 þá var það þá sem 5% reglan kom inn. Hún skemmir að einhverju leyti þessar talningaraðferðir sem við notum eins og d'Hondt-regluna. Hún gerir ekki ráð fyrir að það sé einhver þröskuldur, 5% þröskuldur, sem færir þingmenn flokka sem eru með fá atkvæði yfir á flokka sem eru með mörg atkvæði. Það er þessi halli sem ég er að tala um núna. Sjálfstæðisflokkur er núna með þremur þingmönnum meira en hann ætti að vera með samkvæmt atkvæðahlutfalli. Það er eitthvað rangt við það og við verðum (Gripið fram í: Nei.) að glíma við það. Þremur þingmönnum meira. Ég skil ef það er einn til eða frá, en þrír, það er einfaldlega allt of mikið.