146. löggjafarþing — 58. fundur,  24. apr. 2017.

rannsóknarsetur um utanríkis- og öryggismál.

305. mál
[19:04]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Smári McCarthy) (P):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þetta góða svar. Það er áhugavert að heyra um þá vinnu sem er verið að vinna í utanríkisþjónustunni. Nú veit ég að utanríkisþjónustan vinnur mjög gott verk en er oft frekar fjársvelt, eins og við höfum reyndar rætt um áður í samhengi við t.d. sendiráð og fjölda starfsmanna í sendiráðum.

Ég vil samt meina, fyrst hæstv. ráðherra nefndi þörfina og ef aðstæður leyfðu, að þörfin sé heldur betur til staðar og aðstæður í þjóðfélaginu eru frekar góðar. Nú er hugsanlega ástæða til þess að í stað þess að stofna sérstaka stofnun að veita bara rannsóknarfjármagn til Alþjóðamálastofnunar þannig að hún geti sinnt þessu hlutverki að einhverju leyti. Nú er verið að vinna mjög gott starf þar og full ástæða er til að við göngum lengra, kannski ekki síst í ljósi þeirra breytinga sem eru að eiga sér stað í loftslagsmálum eða í því sem er tengt norðurslóðum og þar fram eftir götunum, svo ekki sé talað um stóru flóknu pólitísku málin sem tengjast því sem ég nefndi áðan; Rússland, Kína, Bandaríkin og fleiri stórveldi og ýmiss konar smáveldi.

Þjóðaröryggisráðið er ágætt fyrirbæri. Að vísu á eftir að skipa það eftir því sem ég best veit. Væri gaman að vita hvort það sé eitthvað sem mun gerast á næstunni. Ég held að það sé hæstv. forsætisráðherra sem fer með það mál, ég verð þá leiðréttur með það ef svo er ekki. Vissulega er það er tækifæri fyrir hagsmunagæslu.

Því er rétt að spyrja: Erum við að gæta nægilega vel að hagsmunum okkar ef allar okkar rannsóknir á utanríkismálum eru í rauninni (Forseti hringir.) byggðar á þekkingu erlendis frá og þekkingu sérfræðinga hérlendis (Forseti hringir.) sem eru í rauninni bara að lesa erlendar rannsóknir?