146. löggjafarþing — 58. fundur,  24. apr. 2017.

greining á þensluáhrifum fjárfestinga og framkvæmda.

380. mál
[19:21]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Herra forseti. Það er auðvitað ýmislegt sem getur komið til álita hvað fer inn í mat af þessu tagi. Eins og hv. þingmaður benti á þarf að horfa þar til ýmissa þátta. Ég sé í fljótu bragði tvennt sem getur skipt miklu máli þegar metin er arðsemi einstakra framkvæmda, t.d. ef við hefðum tölfræði yfir það hvernig tilboð eftir landsvæðum bæri saman við kostnaðaráætlun vegna þess að við sjáum það í framkvæmdum á höfuðborgarsvæðinu þá hafa menn þar verið með lægstu tilboð, jafnvel tvöfalda kostnaðaráætlun, meðan öðru máli gegnir víða um landsbyggðina. Jafnframt þarf auðvitað að taka með arðsemi framkvæmdanna. Það þarf þá að gera í víðu samhengi vegna þess að þetta snýst ekki alltaf bara um krónur og aura, heldur geta félagsleg áhrif hinna ýmsu framkvæmda skipt þar miklu máli.

Varðandi seinni ræðu hv. þm. Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur verð ég að segja að ég er fyllilega sammála því að þetta er mjög mikilvægt. Ég held hins vegar að við verðum ekki með þetta líkan tilbúið núna á vordögum, en það breytir ekki því að mjög mikilvægt er að menn viti þessa hluti og reynt sé að leggja mat á þetta eftir bestu getu.