146. löggjafarþing — 58. fundur,  24. apr. 2017.

fjárfestingarstefna lífeyrissjóða.

446. mál
[19:23]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Andrés Ingi Jónsson) (Vg):

Virðulegi forseti. Oft er fólk hvatt til þess að kjósa með veskinu sem leið til að hafa áhrif á það hvernig heimurinn þróast. Við eigum ansi misstór veski en í sameiningu eigum við nokkur gríðarstór, lífeyrissjóðina, sem ætlað er að varðveita og ávaxta sameiginlega fjármuni sem eiga svo að tryggja okkur áhyggjulaust ævikvöld í framtíðinni. Ríkið hefur nokkuð um ráðstöfun fjármuna lífeyrissjóðanna að segja. Til dæmis tekur 1. júlí næstkomandi gildi ákvæði í lögum sem kveður á um fjárfestingarstefnu lífeyrissjóðanna. Þar er m.a. tekið fram að lífeyrissjóðir skuli setja sér siðferðisleg viðmið í fjárfestingum. Ætlun löggjafans var að undirstrika að sjóðirnir eigi ekki aðeins að huga að ískaldri ávöxtunarkröfu í excel-skjölum, heldur þurfi fjárfestingarstefna þeirra að stuðla að bættum efnahag og batnandi lífskjörum í landinu til framtíðar. Aðeins þannig er raunverulega hægt að segja að lífeyrissjóðirnir haldi fyrsta markmið lagaákvæðis um fjárfestingarstefnu í heiðri, sem er, með leyfi forseta:

„Lífeyrissjóður skal hafa hagsmuni sjóðfélaga að leiðarljósi.“

Hagsmunir eru nefnilega ýmiss konar. Ísland hefur fullgilt Parísarsamning Sameinuðu þjóðanna sem lið í því að styrkja hagsmuni til langrar framtíðar, hnattræn viðbrögð við þeirri ógn sem stafar af loftslagsbreytingum. Ein af þeim aðgerðum sem aðildarríki hafa skuldbundið sig til er samkvæmt 2. gr. samningsins, með leyfi forseta, að: „gera fjármagnsflæði samrýmanlegt við ferli í átt að lítilli losun gróðurhúsalofttegunda og þróun viðnáms gegn loftslagsbreytingum.“

Í þessu skyni hefur á undanförnum árum svokölluð fjárlosun vaxið fiskur um hrygg. Fjárlosun, sem nefnist, með leyfi forseta, á ensku „divestment“ er andheiti fjárfestingar, þ.e. þetta er sú aðgerð fjárfesta, að losa um eignir í tilteknum fyrirtækjum eða atvinnugreinum. Í tengslum við loftslagsbreytingar af mannavöldum snýr þetta eðli málsins samkvæmt að fyrirtækjum sem sýsla með jarðefnaeldsneyti. Auk þess að vera jákvætt skref í baráttunni gegn loftslagsvánni er þetta skynsamleg stefna.

Parísarsamningurinn sem snýst öðrum þræði um að gera fjárfestingar í jarðefnaeldsneyti óarðbærar sýnir að það að eiga fé í svörtum atvinnugreinum stendur ekki undir fjárfestingum til langrar framtíðar.

Því legg ég fram þrjár spurningar til ráðherrans og spyr hvort hann sé mér sammála að með því að snúa sér sem fyrst að fjárlosun, að færa sig úr svörtum í grænar fjárfestingar væru lífeyrissjóðir ekki einungis að veðja á tryggari fjárfestingar til lengri tíma heldur líka sjá til þess (Forseti hringir.) að sjóðfélagar fái notið ævikvöldsins í fagurri og (Forseti hringir.) grænni framtíð þar sem hefur tekist að vinna gegn loftslagsvánni, því að olíuhagkerfið er dauðvona (Forseti hringir.) og það þarf ekki að draga lífeyrissjóðina niður með sér.