146. löggjafarþing — 58. fundur,  24. apr. 2017.

fjárfestingarstefna lífeyrissjóða.

446. mál
[19:32]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Andrés Ingi Jónsson) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka ráðherranum svarið og hv. þingmanni umræðuna. Af því að hér var norski olíusjóðurinn nefndur þá hefur hann, eins írónískt og það kann að hljóma, sett sér þá stefnu um að draga sig út úr fjárfestingum í kolaiðnaði af því að hann hefur einmitt rekið sig á að það þjónar ekki langtímamarkmiðum fólksins sem að baki sjóðnum stendur að styðja við þennan mengandi iðnað og raunar ekki heldur við vopnaframleiðslu. Það er þróunin hjá norska olíusjóðnum, hjá ýmsum háskólum og sveitarfélögum og lífeyrissjóðum í löndunum í kringum okkur. Það er þróun sem á sér stað nú af því að hún þarf að eiga sér stað. Ég tek undir orð hæstv. ráðherra um að væntingar almennings til sjóðanna séu þær að þeir fjárfesti í iðnaði sem ekki er siðferðilega er ámælisverður eða sem valda mun stórkostlegri mengun. Vandinn er hins vegar sá, eins og hv. þm. Björn Leví Gunnarsson kom inn á, að gagnsæið vantar algjörlega.

Hvort sem við þurfum sérstaka lagabreytingu til þess eða hvað það er þá vitum við ekki, hvorki sem Alþingi, sem sjóðfélagar eða bara sem nokkur borgari í landinu, hvernig lífeyrissjóðir ráðstafa fjárfestingum sínum, sérstaklega ekki erlendis. Um er að ræða 700–800 milljarða kr. í útlöndum, 20% af eignasafni lífeyrissjóðanna, sem við hæstv. ráðherra stefnum væntanlega báðir að því að aukist svo þeir losi þrýsting af innlendu hagkerfi. En þá má það ekki vera í mengandi iðnaði. Það má ekki vera í vopnaframleiðslu. Það má ekki vera í einhverju fyrirtæki þar sem við myndum ekki geta staðið stolt eftir 50 ár og sagt: Hér er fyrirtæki sem lífeyrissjóðurinn minn (Forseti hringir.) styrkti. Þannig að ég set spurningarmerki við (Forseti hringir.) að það sé einhvern veginn hægt að treysta lífeyrissjóðum (Forseti hringir.) fyrir að keyra þetta bara áfram í frígír án þess (Forseti hringir.) að einhvers konar eftirlit sé haft með því að þetta sé gert.