146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

störf þingsins.

[13:43]
Horfa

Ómar Ásbjörn Óskarsson (V):

Frú forseti. Þar sem ég er ættaður frá Færeyjum hefur mér alltaf þótt vænt um þau sérstöku samskipti sem Ísland og Færeyjar hafa átt í gegnum árin. Ég held að toppnum hafi verið náði síðasta sumar þegar miðbær Þórshafnar fylltist alltaf þegar Ísland var að keppa á EM og fagnaðarlætin voru engu síðri en fagnaðarlætin hér heima.

En það er önnur þjóð sem hugsar álíka hlýtt til okkar og Færeyingar og það eru Grænlendingar. Ég fékk tækifæri til að búa á Grænlandi í nokkra mánuði og var ávallt mjög vel tekið sem Íslendingi. En hvernig geta samskipti okkar við Grænlendinga orðið álíka hlý og samskipti okkar við Færeyinga? Einn af lykilþáttum í því eru aukin viðskipti. Ég vil nota tækifærið og hrósa fyrrverandi utanríkisráðherra, hv. þm. Lilju Alfreðsdóttur, fyrir að leggja aukna áherslu á viðskipti við Grænland í utanríkisráðherratíð sinni. Viðskipti eru mikilvægur þáttur í auknu sjálfstæði þjóða, eins og við Íslendingar kynntust vel þegar við færðum viðskipti okkar í meira mæli frá Dönum eftir fyrra stríð. Við erum alls ekki stórþjóð en aftur á móti er sá samningur sem Royal Arctic og Eimskip gerðu á síðasta ári risastórt og mikilvægt stökk fyrir Grænland en einnig fyrir Ísland. Bæði löndin munu byggja flutningaskip sem verða þau stærstu í sögu þjóðanna beggja. Til að undirstrika þá mikilvægu viðskiptahagsmuni sem eru að myndast ætla Grænlendingar að opna sendistofu hér á næstu mánuðum. Ég fagna því.

Eimskip og félög eins og KALAK og Hrókurinn hafa verið í forystu fyrir bætt samskipti á milli landanna og nú er kominn tími á að pólitíkin taki við. Við eigum að hvetja til fleiri funda á milli æðstu ráðamanna. Við eigum að hvetja til aukins vægis Grænlands innan Norðurlandaráðs. Við eigum að auka möguleika á að flytja inn afurðir eins og hreindýrakjöt og sauðnautakjöt. Við eigum að hvetja til fleiri vináttuleikja í íþróttum og við eigum jafnframt að styrkja þau góðu verk sem KALAK og Hrókurinn vinna með því að virkja almennilega Grænlandssjóð, sem hefur samkvæmt heimildum ekki greitt neina sérstaka styrki síðan 2009. Ég treysti hæstv. utanríkisráðherra fyllilega til að fylgja þessum málum eftir.