146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

störf þingsins.

[13:50]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Við lifum á þenslutímum. Ekki bara þannig að þeir séu uppi akkúrat núna heldur er það beinlínis þannig að ríkisstjórnin gerir ráð fyrir að þeir haldi áfram. Öll fjármálaáætlun hennar byggir á því að hér verði áframhaldandi þensla og hagvöxtur. Slíkum aðstæðum fylgja framkvæmdir. Það er alveg augljóst að það mun aukast, ef eitthvað er, að hingað til lands komi fólk að vinna að alls kyns verkefnum sem eru í bígerð og jafnvel hafin.

Við þær aðstæður er ákaflega mikilvægt að öll vinnumarkaðsmál séu í góðum farvegi. Ég fagna því sérstaklega að hæstv. ráðherra skuli sitja hér og hlusta á mig, ég veit að honum finnst fátt skemmtilegra en að hlusta á mig, því að ég held að við þurfum alveg sérstaklega að vera á verði núna þegar að þessum málum kemur. Það þarf að gæta að réttindum verkafólks í hvívetna.

Ég sé þess ekki stað í áætlanagerð ríkisstjórnarinnar að það eigi sérstaklega að efla þá starfsemi sem að þessu lýtur. Að Vinnueftirlitið eigi að fara í almennilegt samstarf við verkalýðshreyfinguna og setja eigi fjármuni sem þarf til þess til að hafa öll þessi mál á hreinu. Þessi mál geta verið afskaplega ljót við ákveðnar aðstæður, það geta fylgt mansalsmál. En almennt séð þarf allt að vera uppi á borðum þegar að þessu kemur. Þegar það er vöxtur í málaflokki eins og er núna þurfa þær stofnanir sem að honum koma að vaxa með. Ríkisstjórnin virðist ekki ætla sér að taka á því með því að setja aukna fjármuni í málaflokkinn. Við þurfum ekki að leita langt aftur í söguna til að sjá sprengju í þessum málum (Forseti hringir.) þar sem við höfum því miður allt of lítið fylgst með og þannig brotið á réttindum þeirra sem síst ætti að gera. (Forseti hringir.)

Virðulegur forseti. Þetta voru bara tíu sekúndur.

(Forseti (UBK): Ræðutíminn er tvær mínútur.)