146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

störf þingsins.

[13:59]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég er áhugamaður um siðareglur ráðherra. Í gær sendi ég fyrirspurn til forsætisráðherra vegna meðhöndlunar hans á skattaskjólsskýrslunni með tilliti til siðareglna ráðherra. Ég hlakka til að heyra svör ráðherra við þeim spurningum.

Í þetta skiptið vil ég hins vegar beina athygli minni að öðrum ráðherra sem ég tel hafa brotið siðareglur ráðherra, heilbrigðisráðherra. Þann 19. apríl sl. sendi embætti landlæknis frá sér tilkynningu til að leiðrétta misskilning sem embættið sá á túlkun laga. Landlæknir staðfesti að Klíníkin uppfyllti faglegar lágmarkskröfur um sérhæfða sjúkrahúsþjónustu sem þarf samkvæmt lögum til að heilbrigðisráðherra geti veitt starfsleyfi til slíkrar þjónustu. Tilkynning landlæknis kom í kjölfar ummæla heilbrigðisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma á þingi þar sem ráðherra sagði að það væri ekki hans að veita starfsleyfi heldur landlæknis.

Hér eru tveir aðilar ekki sammála, landlæknir og ráðherra. Af hverju er það brot á siðareglum ráðherra? Jú, í grein 6 a í siðareglum ráðherra segir nefnilega, með leyfi forseta:

„Ráðherra skal upplýsa almenning og fjölmiðla með reglulegum og skipulegum hætti um störf ráðuneytis síns. Leiðrétta ber eins fljótt og auðið er rangar upplýsingar eða misskilning sem upp kann að koma varðandi störf ráðherra.“

Ef það sem landlæknir segir er rétt er liðinn rúmur mánuður síðan ráðherra sagði Alþingi ósatt og um vika síðan landlæknir leiðrétti þann misskilning. Mér þykir „eins fljótt og auðið er“ teygjanlegra orðaval en „strax“ en vika ætti auðveldlega að duga fyrir ráðherra til að leiðrétta þennan misskilning, hvað þá mánuður.

Næstu skref málsins eru að komast að því hvort þetta hafi verið misskilningur hjá ráðherra eða afvegaleiðing — og þar af leiðandi lygi.