146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

fullgilding fríverslunarsamnings milli EFTA-ríkjanna og Filippseyja.

263. mál
[14:25]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Frú forseti. Við fjöllum hér um fullgildingu fríverslunarsamnings milli EFTA-ríkjanna og Filippseyja sem var undirritaður 28. apríl 2016 í Bern í Sviss. Aðeins nokkrum vikum síðar, 30. júní sama ár, tók við embætti forseta Filippseyja maður að nafni Rodrigo Duterte. Hann hafði áður starfað sem borgarstjóri Davaó í heil 22 ár og unnið sér orðspor sem ötull og kraftmikill talsmaður gegn eiturlyfjasölum og öðru fólki tengdu þeim ósóma. Svo hart gekk hann fram sem borgarstjóri gegn þessari eiturlyfjavá að undir hans verndarvæng áttu sér stað, samkvæmt tölulegum upplýsingum mannréttindasamtaka, dráp á 1.400 eiturlyfjaneytendum, götubörnum og smáglæponum, án dóms og laga. Í forsetatíð sinni hefur Duterte ekki slakað á klónni í baráttu sinni gegn eiturlyfjaneytendum heldur hefur þessi æðsti yfirmaður filippseyska hersins og lögreglu þar í landi gefið meira í en áður og haldið úti óvægnu og ómannúðlegu stríði gegn eiturlyfjaneytendum og sölumönnum og látið drepa enn fleiri íbúa í tíð sinni sem forseti en þegar hann gegndi borgarstjórastöðu Davaó-borgar. Alls höfðu mannréttindasamtökin Human Rights Watch og mannréttindasamtök á Filippseyjum skráð dráp á 4.800 íbúum í forsetatíð Duterte á síðasta ári, sem eru rakin beint til lögregluliðs forsetans eða sérsveita á hans vegum, 4.800 manns sem búið var að drepa án dóms og laga á rúmum tveimur mánuðum valdatíðar Duterte í forsetastóli, með hans leyfi og að hans skipun.

Ástæðan fyrir því að þessi hræðilegu morð og aftökur á borgurum landsins hafa verið leyfð af hálfu forseta Filippseyja, lögregluyfirvalda og herja hans, er einföld: Hann lofaði því statt og stöðugt í kosningabaráttu sinni að lögregluyfirvöld undir hans stjórn ættu að drepa alla þá með köldu blóði sem grunaðir væru um eiturlyfjasölu eða eiturlyfjaneytendur. Fyrstu vikurnar í embætti sínu ítrekaði forsetinn þessi skilaboð. Þeir sem myndu stunda þessi dráp fyrir forsetann yrðu ekki dæmdir fyrir manndráp. Og dómstólar landsins hafa verið vanmáttugir gagnvart forsetanum sem lætur drepa fólk á götum úti heima hjá sér án dóms og laga, drepa borgara sem ekki höfðu hlotið dóm og refsingu, heldur voru drepnir með köldu blóði í boði forseta landsins.

Þann 18. ágúst 2016, aðeins einum og hálfum mánuði eftir að Duterte tók við forsetaembætti Filippseyja, skoruðu Sameinuðu þjóðirnar og sérfræðingar innan samtakanna í mannréttindum á stjórnvöld í Filippseyjum að virða laga- og réttarkerfið í landinu og láta dæma afbrotamenn í eiturlyfjaglæpum í dómstólum landsins og þar með virða sjálfsögð og lögbundin mannréttindi fólks um að vera dæmt fyrir dómstólum. Ekki með því að beita sér fyrir því að gengi og hópar byssumanna á vegum filippseyskra stjórnvalda léku lausum hala á götum úti og dræpu fólk, sem kallast á mannamáli aftökur. Þessar aftökur án dóms og laga fara enn fram á íbúum Filippseyja þegar við ræðum hér þingsályktunartillögu ríkisstjórnarinnar um að nú skuli fullgilda fríverslunarsamning við Filippseyjar.

Það þarf ekki að minna neinn í þessum sal á að þessar hryllilegu aðgerðir brjóta þvert á alþjóðlegum samningum um mannréttindi og alþjóðlegum skuldbindingum um réttindi borgaranna í hverju einasta ríki.

Viðbrögð Dutertes forseta við orðum og hvatningu Sameinuðu þjóðanna til hans um að virða lög og dómstóla voru þau að hóta því einfaldlega að draga Filippseyjar úr Sameinuðu þjóðunum og vanvirða þar með þær alþjóðaskuldbindingar sem landið er aðili að. Ef þessar aftökur án dóms og laga væru ekki nóg til þess að einhver hér inni og annars staðar gæti efast agnarögn um að það væri siðferðislega rétt að fullgilda fríverslunarsamning við ríki þar sem forseti þess stendur fyrir drápum á borgurunum er kannski líka vert að minnast á önnur grafalvarleg mannréttindabrot sem eiga sér stað á Filippseyjum, sem virt mannréttindasamtök hafa gert mjög alvarlegar athugasemdir við. Þar ber hæst árásir stjórnvalda á frumbyggja á síðasta ári þegar 6.000 frumbyggjar stóðu fyrir mótmælum í borginni Kidapawan til að krefjast þess að stjórnvöld aðstoðuðu bændur með því að útvega þeim nauðsynjavörur í kjölfar langvarandi þurrka. Viðbrögð stjórnar Dutertes voru þau að skjóta á mótmælendur og drepa fólk í hópi þeirra.

Mannréttindabrot á börnum af hálfu filippseyskra stjórnvalda hafa átt sér stað og gerðar hafa verið alvarlegar athugasemdir, nú síðast á síðastliðnu ári. Má þar minna á að stjórnvöld í landinu tóku haldi að minnsta kosti 140 heimilislaus götubörn í aðdraganda fundar efnahagsráðs Asíu-Kyrrahafslanda sem átti sér stað í nóvember 2015 og héldu þeim föngnum á meðan fundurinn átti sér stað.

Human Rights Watch hefur líka gert alvarlegar athugasemdir og vakið athygli á barnaþrælkun í filippseyskum gullnámum á 25 metra dýpi þar sem börn hafa verið notuð til að kafa ofan í vötn neðan jarðar til að finna gull. Baráttusamtök fyrir réttindum samkynhneigðs fólks hafa líka mótmælt harðlega mismunun gagnvart samkynhneigðum á Filippseyjum og öðru fólki sem vegna kynhneigðar sinnar eða kyngervis hefur verið mismunað samkvæmt lögum frá sjálfsagðri menntun og öðrum lagalegum réttindum. Allt í tíð núverandi forseta.

Hatursglæpum gegn samkynhneigðu fólki hefur enda fjölgað frá því Duterte tók við völdum og fjöldi morða á transfólki er sá allra mesti í löndum Suðaustur-Asíu.

Að öllu þessu sögðu er mér algerlega fyrirmunað að skilja hvers vegna ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar vill lögleiða og fullgilda hér fríverslunarsamning við Filippseyjar þar sem forsetinn morðóði, Rodrigo Duterte, situr við völd. Það er mér algerlega fyrirmunað að sjá að ríkisstjórn sem segist leggja áherslu á mannréttindi, jöfn tækifæri, fjölbreytni, frelsi og ábyrgð, ásamt virðingu fyrir ólíkum lífsskoðunum sem fram kemur í 3. gr. stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Það er mér fyrirmunað að skilja hvers vegna hæstv. utanríkisráðherra mælir hér fyrir þessu máli á meðan Duterte er forseti landsins.

Af hverju kemur ríkisstjórn Íslands með svona mál hingað inn í sal Alþingis? Af hverju vill ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar, liðka fyrir viðskiptum við morðóða menn? Eru viðskiptahagsmunir virkilega metnir hér meira en sjálfsögð mannréttindi? Ef af fullgildingu fríverslunarsamnings við Filippseyjar verður við þær aðstæður sem hér hefur verið lýst, er ekki annað hægt en að álykta sem svo að núverandi ríkisstjórn Íslands setji viðskiptalega hagsmuni mun ofar en að virða sjálfsögð mannréttindi og alþjóðlegar skuldbindingar varðandi réttindi borgaranna.

Við eigum rétt á því að fá hér hreinskilin svör við því af hverju ríkisstjórnin vill gera viðskiptasamninga við ríkisstjórn sem stendur fyrir jafn alvarlegum mannréttindabrotum og raun ber vitni. Kurteislegar athugasemdir, eins og hæstv. utanríkisráðherra var að lýsa hér áðan í andsvari, nægja ekki þegar mannréttindabrot af þessu tagi eiga sér stað.

Í formálsorðum samningsins er, með leyfi forseta, gerð grein fyrir ýmsum forsendum og markmiðum samningsaðila við gerð samningsins. Þar kemur m.a. fram:

„Áréttuð er skuldbinding ríkjanna um að styðja við lýðræði, réttarreglur, mannréttindi og mannfrelsi í samræmi við skyldur þeirra að þjóðarétti, m.a. í samræmi við ákvæði sáttmála Sameinuðu þjóðanna og mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna.“

Þessi orð eru marklaus, frú forseti. Ef einhver dugur væri í hæstv. utanríkisráðherra með að virða mannréttindi bæri hann svona mál ekki hingað inn á borð Alþingis.