146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

fullgilding fríverslunarsamnings milli EFTA-ríkjanna og Filippseyja.

263. mál
[14:50]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég væri svo sem sammála þessu ef við værum með einhvers konar ákvæði í þessum samningi um að það væru einhverjar takmarkanir á eðli samningsins ef stórfelld mannréttindabrot kæmu upp, eins og við erum með í öðrum ákveðnum samningnum. Í stofnsáttmála Evrópuráðs kemur t.d. fram að hægt sé að setja lönd í tímabundið bann. Það er nokkuð sem við ættum að skoða gagnvart löndum eins og Rússlandi í augnablikinu, jafnvel Aserbaídsjan, fyrir einmitt stórfelld mannréttindabrot.

Nú erum við einmitt með viðskiptaþvinganir gagnvart Rússlandi í augnablikinu. Þrátt fyrir að vera algjör fantur og bara ekki góður maður, hefur Vladimír Pútín ekki orðið uppvís að því að drepa 9.400 manns svo ég viti, ef til vill einhver hundruð með tilskipunum sínum, jafnvel einhver þúsund, en ekki með svo blóðugum og hrottafullum hætti eins og Duterte.

Værum við í þessum viðskiptaþvingunum nema út af því að það er pólitískt heppilegt fyrir okkur? Það er svolítið mótsagnarkennt að við skulum segja: Ja, Filippseyjar, þær eru svo langt í burtu, það skiptir kannski ekki miklu máli. Það er fínt að fara í fríverslun við Filippseyjar vegna þess að það er svo einfalt, vegna þess þessir 9.400 manns sem myrtir hafa verið eru í hæfilegri fjarlægð frá okkur og koma okkur ekki pólitískt við með þessum sama hætti — að það sé einhvern veginn ásættanlegt. Ég segi nei við því.

Ég segi að við ættum að bíða með þennan viðskiptasamning. Við ættum að bíða með þessa fríverslun og að við ættum að nota tækifærið til þess að senda þau skilaboð að mannréttindabrot eru ekki ásættanleg, og ég myndi helst vilja að hæstv. utanríkisráðherra myndi koma þeim skilaboðum jafnvel mjög ókurteist á framfæri við filippseysk stjórnvöld. Þau hafa aldrei verið það og munu ekki verða það. Við ættum ekki að stunda fríverslun við lönd sem fara þessa leið. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)