146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

fullgilding fríverslunarsamnings milli EFTA-ríkjanna og Filippseyja.

263. mál
[15:05]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé akkúrat mikilvægt núna í ljósi ástandsins í heimsmálum að reyna að ná samskiptum við stjórnvöld í Norður-Kóreu og opna á samtal og koma þannig á samskiptum, hvort sem það snýr að viðskiptum, frelsi fólks til að mennta sig eða hvað það er, sérstaklega í Norður-Kóreu og annars staðar, til þess að losna undan harðstjórum sem eru við völd í þeim ríkjum. Það er afstaða mín í málinu.

Ég tek alveg heils hugar undir áskorun hv. þingmanns til hæstv. utanríkisráðherra um að íslenskum stjórnvöldum beri að mótmæla kröftuglega þeim mannréttindabrotum sem eiga sér stað á Filippseyjum og í öðrum ríkjum, jafnvel í Kína, út af Tíbet þar sem við erum með fríverslunarsamning, eða mannréttindabrotum í Rússlandi þar sem við viljum eiga í samskiptum við rússnesk stjórnvöld, til þess að reyna að stuðla að eðlilegu samtali og samstarfi á alþjóðavettvangi í þágu mannréttinda, friðar og velmegunar íbúanna allra.

Þetta leiðir mig þá að spurningunni, af því að við erum að ræða fríverslunarsamninga: Er munur á fríverslunarsamningum sem koma tilteknum borgurum ríkja til góða, geta eflt efnahag þeirra og stöðu til þess að verja sig gegn yfirgangi vondra stjórnvalda? Telur hv. þingmaður að sömu sjónarmið ættu jafnvel við þegar um er að ræða þróunaraðstoð? Ætti Ísland að hætta þróunaraðstoð til ríkja þar sem óæskilegir harðstjórar ráða? Er það sambærilegt eða ekki? Ef það er ekki sambærilegt, að hvaða leyti er það ekki sambærilegt?