146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

fullgilding fríverslunarsamnings milli EFTA-ríkjanna og Filippseyja.

263. mál
[15:24]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir svarið. Ég er ósammála þessari sýn á hvað viðskipti séu og hvað fríverslunarsamningar séu. Það þarf ekki að koma á óvart miðað við á hvaða pólitíska rófi almennt við hv. þingmaður stöndum. Ég myndi telja að frjáls viðskipti um heiminn, bæði innan viðkomandi ríkja og á milli ríkja, hafi eflt einstaklinga í þeim ríkjum frekar en hitt. Tölurnar sýna það svo sem. Er hægt að tryggja að stjórnvöld í viðkomandi ríkjum noti aukinn auð og samskipti alltaf til góðs? Nei, það er ekki hægt. En það er svo sem heldur ekki hægt að tryggja neitt.

Ég staldra aðeins við þann punkt: Það var vinstri stjórnin sem gerði fríverslunarsamning við Kína og var mjög stolt af honum. Hvað er í grunninn öðruvísi nú? Því meira sem heimurinn smækkar vegna samtala, upplýsingar, viðskipta og frelsis, því betra. Og hvar eigum við að draga línuna? Ætlum við að gera upp á milli ríkja sem myrða og drepa og fangelsa án réttarríkis? Við búum í frábærlega fínu ríki að mörgu leyti og erum heppin hvað það varðar. Við getum bent á ýmis ríki og ýmsar þjóðir og eflaust finnum til með því fólki sem þar þarf að vera. Hvar liggur ábyrgð okkar í því? Hvar drögum við línuna? Hvað t.d. með Bandaríkin með sínar dauðarefsingar? Ekki kvittum við upp á dauðarefsingar þrátt fyrir öll okkar viðskipti við Bandaríkin. Við getum nánast tekið hvert einasta ríki í heiminum og bent á eitthvað sem betur mætti fara. Við verðum bara að tala hátt og skýrt um gildi okkar en vona að þau nái frekari útbreiðslu og eru viðskipti mikilvægur partur af því, að mínu viti.