146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

fullgilding fríverslunarsamnings milli EFTA-ríkjanna og Filippseyja.

263. mál
[15:38]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Í fríverslunarsamningnum stendur, með leyfi forseta, þær þjóðir:

„sem árétta þá skuldbindingu sína að styðja við lýðræði, réttarreglur, mannréttindi og mannfrelsi í samræmi við skyldur sínar að þjóðarétti, meðal annars eins og fram kemur í sáttmála Sameinuðu þjóðanna og mannréttindayfirlýsingu SÞ, …“

Þetta er kjarni málsins. Nákvæmlega þarna. Þarna er línan. Ef farið er yfir hana hendum við þessu burt. Þá er spurningin: Eigum við að prófa og athuga hvort þeir hætti öllu því sem brýtur í bága við mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna og hætta síðan fríverslunarsamningnum eða eigum við að athuga hvort mannréttindamálin, vandamálin sem eru í gangi þarna núna, leysist áður en við prófum? Núna er þetta spurning um fríverslunarsamning gagnvart óbreyttu ástandi og svo viðskiptaþvingunum hins vegar. Ég er ekki að mæla með viðskiptaþvingunum. Ég er ekki að mæla með fríverslunarsamningi miðað við þessar forsendur samningsins og þær aðstæður sem eru uppi. Óbreytt ástand og eitthvað annað væri tvímælalaust gáfulegt, eins og að koma á framfæri þeim skoðunum okkar að mannréttindabrot eins og þau hafa birst okkur séu algerlega óásættanleg, ekki sé hægt að fara í fríverslunarsamninga fyrr en algerlega sé tryggt að þau muni ekki verða framin því að þau myndu brjóta á samningnum og við yrðum að hætta við hann. Málið þarf ekkert að vera flóknara en það. Ég kalla eftir að við hinkrum aðeins og prófum aðrar leiðir áður en við stígum það skref að klára fríverslunarsamning. Það er ekkert í honum sem lagar málin nema þá helst að hann verði ógiltur svo til strax því að það er brotið á mannréttindum núna.