146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

fullgilding fríverslunarsamnings milli EFTA-ríkjanna og Filippseyja.

263. mál
[15:40]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmönnum fyrir umræðuna og tek öllum hvatningum um að láta rödd okkar heyrast í mannréttindamálum alvarlega og mun halda því áfram. Ég er eini íslenski utanríkisráðherrann sem ávarpað hefur mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna og kannast ekki við að hafa komið með kurteislegar athugasemdir við dráp með ólöglegum hætti, ég kannast ekki við að það hafi verið eitthvað sérstaklega kurteist.

Ég verð að viðurkenna að mér finnst sumt sem sagt hefur verið í þessari umræðu svolítið sérstakt. Ég skil vel að menn séu í stjórnarandstöðu og eigi að gagnrýna stjórnvöld og veita þeim aðhald. Ég gerði það svo sannarlega þegar ég var í stjórnarandstöðu. En aldrei hvarflaði að mér að segja að þegar ríkisstjórn VG og Samfylkingarinnar gerði fríverslunarsamning við Kína að hún væri að verðlauna mannréttindabrot eða skrifa upp á þau í því stóra landi. Ég kannast ekki við það og held það hafi ekki hvarflað að nokkrum einasta manni að gera það.

Það er ekki þannig að við ætlum ekki að gera nokkurn skapaðan hlut þegar kemur að þessu máli. Við látum rödd okkar heyrast. Ég fór að vísu yfir það hér í andsvörum, svo ég endurtaki það, að ég tók þetta mál upp í mannréttindaráðinu. Embættismenn munu fylgja því eftir sem og alþjóðasamfélagið. Á vettvangi Sameinuðu þjóðanna er svokölluð jafningjarýni, og á að skoða Filippseyjar af ástæðum sem hér hafa verið nefndar. Nú getum við verið ósammála um ýmislegt. Mér finnst það bara eðlilegasta mál í heimi og þannig skulum við hafa það. En ekki væna menn um að vera með einhverjum hætti að skrifa upp á eða samþykkja ógeðfelld mannréttindabrot sem hér var farið ágætlega yfir áðan. Það finnst mér í besta falli ósanngjarnt.

Svo geta menn deilt um hvað séu bestu leiðirnar til að ná fram mannréttindum í viðkomandi löndum. Höfum það alveg á hreinu að þessi viðskiptasamningur mun ekki skipta gríðarlegu máli fyrir efnahagslega stöðu Íslands. Ef hann verður lögfestur mun hann vonandi gera það að verkum að eitthvert fólk á Filippseyjum nýtur betri lífskjara og verður í sterkari stöðu til að láta að sér kveða. Menn geta farið yfir söguna og metið hvað sé rétt og rangt, hvað var skynsamlegt og hvað óskynsamlegt. Það er alls ekki þannig að aldrei hafi verið gagnrýnt að t.d. þróunaraðstoð hafi hjálpað harðstjórum við að vera við völd, og einnig mannúðaraðstoð og neyðaraðstoð. Allir sem hafa fylgst með alþjóðamálum vita að sú umræða hefur verið í gangi. Við eigum að standa vel að þróunaraðstoð en við eigum samt sem áður að gera hvað við getum til að sjá til þess að mannréttindi séu virt. Mér finnst það hanga saman.

Hv. þm. Kolbeinn Proppé minntist á viðskiptaþvinganir gegn Rússum. Viðskiptaþvinganir Vesturveldanna voru afmarkaðar til að koma í veg fyrir að almenningur í Rússlandi yrði fyrir þeim. Það var hugsunin. Þeim var beint að afmörkuðum hópi, fyrst að eigum ákveðinna auðmanna. Þeir voru settir í ferðabann og ýmislegt annað. Hins vegar eru viðskiptaþvinganir Rússa á okkur almennar. Nú getur verið að það sé bara tóm þvæla hjá Vesturveldunum að fara þá leið en það var alla vega hugsunin til að koma í veg fyrir að almenningur í Rússlandi myndi hugsanlega missa störf sín ef Rússar gætu ekki flutt lengur út, yrði fyrir barðinu á því sem var gríðarlega stórt mál, sem okkur bar að berjast gegn og mótmæla. Það hef ég svo sannarlega gert.

Fyrst við tölum um Rússland, hef ég t.d. talað um mannréttindi, réttindi samkynhneigðra og annað slíkt á fundum mínum með rússneskum ráðamönnum. Ég mun halda því áfram. Menn ræða mikið Kína hér, og menn nefndu líka Sovétríkin. Við getum velt fyrir okkur hvort ástandið væri betra í Kína ef við hefðum lokað á það þegar Kína opnaðist. Væri ástandið betra eða verra í Kína ef það hefði verið gert? Er það betra eða verra þegar komin er það stór millistétt í Kína að hún er fjölmennari en öll bandaríska þjóðin sem gerir að verkum að sú millistétt ferðast út um allan heim og kynnist t.d. löndum þar sem mannréttindi eru mun betri? Er það betra eða verra? Hefur það góð áhrif á stjórnarfar í því landi? Er líklegra að það fólk muni geta komið á breytingum? Ég vona að við munum ræða mannréttindamál og hvernig við Íslendingar getum beitt okkur þar. En við þurfum þá að ræða þau í þessu samhengi.

Hér var minnst á ýmsa harðstjóra. Norður-Kórea var nefnd í því sambandi. Það er augljóst að valdhafar þar reyna að loka sitt fólk þar inni og hafa sem allra minnst samskipti við önnur lönd. Menn nefndu Sovétríkin. Þar var hægt að segja fólki að hinum megin væri ástandið miklu verra vegna þess að það hafði ekki séð neitt annað eða verið í neinum samskiptum og var líka illa statt efnahagslega. Menn þurfa ekki að setja sig mikið inn í málefni Norður-Kóreu til að sjá að það er nákvæmlega það sem er gert þar.

Ég geri engar athugasemdir við það og tek því fagnandi þegar ég fæ hvatningu um að beita mér í mannréttindamálum. Ég hef gert það og mun halda því áfram á þeim stutta tíma sem ég hef verið ráðherra. En mér finnst hins vegar, ég skal vera hógvær í orðavali, ósanngjarnt þegar menn leggja mál upp eins og sumir hv. þingmenn gerðu hér áðan. Hv. þm. Kolbeinn Proppé spyr utan úr sal hvort ég eigi við sig, en nei ekki sérstaklega nema mér fannst ekkert samræmi á milli þess að segja að við séum öll sammála um að vera góð hvert við annað miðað við hvernig ræða hv. þingmanns var. En það var hins vegar smámál sem er ekkert atriði í þeirri alvarlegu umræðu sem við tökum hér.

Virðulegi forseti. Við Íslendingar erum dæmi um land sem var sárafátækt fyrir um 100 árum síðan. Við vorum fátækasta ríki Vestur-Evrópu. Við værum enn fátæk ef við hefðum ekki aðgang að öðrum mörkuðum og okkar markaðir væru ekki opnir. Vesturveldin hafa mikið verið gagnrýnt fyrir að loka á markaði sína fyrir fátækum ríkjum. Ef menn ætla að ræða mannréttindamál, að koma á jöfnuði milli þjóða, gefa fólki í fátækari ríkjum tækifæri, verða menn að taka tillit til þess. Ef menn halda að hér séu stórkostlegir viðskiptahagsmunir fyrir Íslendinga hafa þeir hagsmunir ekki litið dagsins ljós. Mér vitanlega hefur enginn haldið því fram að hér væri um eitthvert stórkostlegt viðskiptatækifæri fyrir Ísland að ræða. Örugglega einhver samt. Það þýðir þá líka aukin samskipti á milli landa, fólks. Ég tel að til séu þau öfl á Filippseyjum sem vilja sjá aðrar áherslur og virðingu fyrir mannréttindum og lögum og reglum, og það kæmi mér á óvart ef þau vildu fá stuðning við málflutning sinn, m.a. á alþjóðlegum vettvangi, og stuðning með öllum hætti. Við höfum í þessu tilfelli talað fyrir mannréttindum, jafnt á Filippseyjum og annars staðar, og munum halda því áfram. Mér finnst ekki, þótt menn geti talað um ýmislegt, að menn geti haldið öðru fram hér. Þó að ég sé mjög ósammála mörgum hv. þingmönnum í grundvallaratriðum þegar kemur að stjórnmálum, ætla ég ekki að byrja á því hér að halda því fram að þeir séu ekki sama sinnis. Mér finnst í besta falli ósanngjarnt ef menn halda því fram um okkur sem erum hér í stjórnarliðinu.

Ég vonast til þess að hv. utanríkismálanefnd skoði þessi mál vel. Ég vona að við ræðum mannréttindamálin mjög vel og hvernig við getum látið gott af okkur leiða á alþjóðavettvangi. Við erum fámenn þjóð en höfum rödd og getum gengið á undan með góðu fordæmi og svo sannarlega látið í okkur heyra. Það eigum við að gera. Ef alþjóðasamfélagið kemst að þeirri niðurstöðu að við eigum að beita eitthvert ríki viðskiptaþvingunum held ég að skynsamlegt sé að taka þátt í því.