146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

fullgilding fríverslunarsamnings milli EFTA-ríkjanna og Filippseyja.

263. mál
[15:52]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef augljóslega ekki talað nógu skýrt, ég sagði ekki að stjórnarandstaðan væri á móti bara til að vera á móti. Ég sagði að það væri fullkomlega eðlilegt og að það væri hlutverk stjórnarandstöðu að veita stjórnvöldum aðhald. Það er hugsunin á bak við það fyrirkomulag sem við höfum. Ég geri engar athugasemdir við það.

Ég spyr: Er það ekki svo, þegar kemur að mannréttindum, að við áttum okkur á því að við erum sammála í þessum sal? Heldur einhver öðru fram? Heldur einhver því fram að þegar fríverslunarsamningurinn var gerður í tíð VG og Samfylkingarinnar hafi menn verið að skrifa upp á mannréttindabrot í viðkomandi löndum? Heldur einhver því fram? Ég vona að svo sé ekki og ég treysti því að svo sé ekki.

Mér finnst hv. þingmaður leggja þetta upp með sérstökum hætti. Ég var að færa rök fyrir því, sem rök hafa verið færð fyrir, eins og hv. þingmaður þekkir mjög vel, að með auknum samskiptum og með auknum viðskiptum séu auknar líkur á að þau gildi sem við stöndum fyrir breiðist út um heiminn. Þetta er ekki mjög róttæk skoðun og ekki ný. Ég held að þegar við skoðum mannkynssöguna hafi almenna reglan verið sú. Ég held líka að almenna reglan sé sú að þegar fólk hefur það efnahagslega betra og hefur tækifæri til að ferðast og kynna sér aðra hluti og aðrar þjóðir, ef það býr í slíkum löndum, er það mun líklegra til að vera tilbúið að berjast fyrir sömu hlutum heima fyrir. Það er mín sannfæring.