146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

fullgilding fríverslunarsamnings milli EFTA-ríkjanna og Filippseyja.

263. mál
[16:02]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra svarið þótt ekki hafi það verið skýrt varðandi það hvort hann hafi íhugað að bíða með fullgildingu fríverslunarsamningsins meðan svona háttar til á Filippseyjum. Hann talar um að hafa farið nákvæmlega yfir hvernig íslensk stjórnvöld ætli að beita sér fyrir því að mótmæla og vekja athygli á mannréttindabrotum sem eiga sér stað á Filippseyjum. Það sem hann sagði áðan um það var að hann ætlaði að láta rödd okkar heyrast og að embættismenn utanríkisráðuneytisins myndu koma á framfæri áherslum Íslands þar að lútandi. Núna langar mig að heyra aðeins nákvæmar úr munni hæstv. utanríkisráðherra hvernig hann ætlar að láta rödd sína heyrast gagnvart morðum sem eiga sér stað með leyfi og undir stjórn Duterte, forseta Filippseyja. Nákvæmlega hvernig ætla embættismenn utanríkisráðuneytisins að koma á framfæri skoðun Íslands á alþjóðavettvangi þegar kemur að mannréttindabrotum á Filippseyjum? Mér þætti vænt um að fá skýr svör í þetta sinn.