146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

tóbaksvarnir.

431. mál
[16:33]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ætlun laganna fyrst og fremst að fjalla um vörur sem innihalda nikótín. Það er sennilega tæknilega erfitt að skipta tækninni í tvennt þar sem það eru væntanlega sömu tæki sem eru notuð til þess að neyta nikótínblandaðs vökva og annars vökva. En frumvarpið tekur til þess þegar verið er að tala um öryggi vökvans, styrkleika nikótínblöndunnar í vökvanum; sá hluti frumvarpsins á vitaskuld bara við um þann vökva sem inniheldur nikótín. Það má geta þess að t.d. í Finnlandi þar sem lögin eru talsvert strangari er m.a. bannað að nota bragðefni, en við göngum ekki svo langt hér.