146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

tóbaksvarnir.

431. mál
[17:06]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég geri mér grein fyrir að það er væntanlega óhefðbundið að veita andsvar í svona umræðu. Mig langaði samt aðeins til að heyra ofan í hv. þingmann eftir ræðu hennar þar sem hún fullyrðir að hér séum við mögulega að fara á mis við mjög mikilvægt tækifæri þegar kemur að skaðaminnkandi tækni til að minnka reykingar. Eins og hefur komið fram í umræðunni eru rannsóknir takmarkaðar og þetta er tiltölulega ný tækni sem er enn í skoðun. En það er nokkuð ljóst miðað við þær rannsóknir sem við þegar höfum, m.a. á ungmennum hér á Íslandi, að notkun á rafsígarettum er talsvert umfram notkun á tóbaki, þ.e. það er mjög hátt hlutfall sem notar rafsígarettur. Hjá ungmennum á Íslandi hefur það mælst 14% meðan einungis 2% ungmenna reykja tóbak. Tilgangur frumvarpsins er ekki síst að reyna að koma í veg fyrir nýgengi, að ungmenni ánetjist nikótíni, sem er þekkt lyf sem veldur fíkn. Hér er farin talsvert mýkri leið en með tóbak. Það er t.d. tilkynningarskylt til Neytendastofu en ekki bundið dreifingu í gegnum Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins. Mig langaði í því samhengi að inna hv. þingmann eftir því hvort hún taki ekki undir með ráðherra um mikilvægi þess að hafa reglur um öryggi og horfa sérstaklega út frá lýðheilsusjónarmiðum á áhrif vörunnar þegar kemur að neyslu ungmenna.