146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

tóbaksvarnir.

431. mál
[17:16]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það duga ekki minna en tveir Proppé-ar til að fara í andsvar við þessa ágætu ræðu. Ágæt fannst mér hún. Margt kom mér til að velta málinu fyrir mér. Ég ætla að leyfa mér að eiga aðeins orðastað við þingmann um hugmyndir hennar um þetta. Hv. þingmaður kom inn á almannarýmið og þær reglur sem hér eru settar samhljóða tóbaksnotkun hvað varðar þessa vöru. Mig langar að spyrja hv. þingmann. Hún kom inn á að jafnvel yrði það sett í hendur sveitarfélaga eða eigenda almannarýmis. En telur hv. þingmaður einhverja þörf á takmörkunum á notkun rafrettna?

Eins langar mig að spyrja hv. þingmann út í það sem hér segir varðandi auglýsingar og markaðssetningu, að óheimilt sé að auglýsa þær og hafa sýnilegar á sölustöðum að undanskildum sérvöruverslunum.

Síðan langar mig að spyrja hv. þingmann nánar út í það sem ég hef heyrt mjög marga tala um, áhyggjur af því að þetta verði til þess að færri nýti þessa vöru til að hætta að reykja. Telur hv. þingmaður einboðið að ef frumvarpið verði óbreytt að lögum muni færri nýta sér þetta tæki til að reyna að hætta að reykja tóbak?