146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

tóbaksvarnir.

431. mál
[17:43]
Horfa

Bjarni Halldór Janusson (V) (andsvar):

Herra forseti. Það er ánægjulegt að heyra að ég og hv. þingmaður séum að mestu leyti sammála og ég held að flestir í þessum þingsal séu að mestu leyti sammála, alla vega um mikilvægi þess að hafa einhvers konar ramma í kringum þetta.

Ef við erum sammála um að þetta sé skárra, þetta er að vísu ekki hættulaust, hvers vegna getum við ekki bara haldið okkur við það að vera sammála um að hafa einhvers konar ramma sem gengur samt ekki eins langt og með sígarettur? Hér er eiginlega verið að segja að þetta séu sömu efnin.

Ég velti því fyrir mér hversu mikilvægur þáttur það er í umræðunni miðað við hversu margir ánetjast ávanabindandi efni hversu margir ná að fara úr sígarettunum yfir í rafsígaretturnar. Það skiptir auðvitað líka máli. Þess vegna finnast mér ekki fullnægjandi rök fyrir því að þetta fari í nánast nákvæmlega sama flokk og sígarettureykingar. Ég legg til að við reynum frekar að vinna áfram með þann grunn sem við erum öll sammála um og göngum ekki með þetta alla leið með því að samþykkja að notkun rafrettna sé bara eins og sígarettureykingar.