146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

tóbaksvarnir.

431. mál
[17:45]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir andsvarið. Við erum sem sagt sammála um notkun rafsígarettna að vissu leyti. Hv. þingmaður segir: Af hverju getum við ekki verið sammála alla leið? Það er nú kannski það sem skiptir okkur í tvo hópa í hinum ýmsu málum að við erum ekki sammála alla leið.

Ég vitnaði til fólks sem hefur verið að nýta sér rafrettur til þess að hætta að reykja. Það er fólk á öllum aldri, ungt og fullorðið, sem ekki hefur sett það fyrir sig í fyrsta lagi að þurfa að hafa miklu meira fyrir því en mér finnst þetta frumvarp boða. Mér finnst það í rauninni auka aðgengi. Í fyrsta lagi er verið að gera þetta löglegt, og í annan stað er verið að auka aðgengi að þessari vöru sem er ekki til staðar í dag. Maður getur ekki keypt sér rafsígarettur úti á landi, alla vega ekki í minni heimabyggð. Verið er að auka aðgengið. Fólkið sem nýtir sér þetta til þess að hætta, alla vega það sem ég hef talað við, kvartar ekki yfir því að það megi ekki nota rafrettuna hvar sem er. Það kvartar ekki yfir því að þurfa að sækja sér þær eftir einhverjum tilteknum leiðum o.s.frv.

Ef við ætlum að horfa á lýðheilsustefnu ríkisins, ef við ætlum að horfa á forvarnastefnu ríkisins, þá er þetta í anda þess, en samt meira að segja pínulítið frjálslegt. Við eigum ekki að hvetja til þessarar notkunar, en það er ákveðin fræðsla í kringum tóbaksvarnirnar. Eigum við ekki að velta því fyrir okkur að bæta inn fræðslu um þetta, af því ég sá það ekki í lögunum? Það gæti hafa farið fram hjá mér ef fara á fram einhvers konar fræðsla. Hún gæti falist í því að að benda á að þessi kostur sé skárri en hinn. Ég held að nefndin þurfi að huga að því þegar hún fær málið. Þá koma væntanlega fjölbreyttar umsagnir um málið.