146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

tóbaksvarnir.

431. mál
[17:47]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef ekki kynnt mér frumvarpið vel, heyri að hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir er hlynnt því en vill kannski hafa það svolítið harðara. Ég heyrði í andsvari þingmannsins að hún lítur svo á að aðgengi muni aukast að vörunni en þetta setur einhvern veginn betri ramma utan um það. Ef þetta fer í tóbaksvarnalög, hafi ég skilið það rétt, munu menn ekki geta notað vöruna inni af því að þá heyrir það undir sömu reglur hvað það varðar. Það sem ég hjó helst eftir í ræðu þingmannsins var að þingmanninum finnst þetta gott varðandi skaðaminnkunina. Hún segir að það sé skaðaminnkandi verkfæri eða leið að geta tekið inn nikótín í þessu formi í staðinn fyrir að taka það inn með reyk og alls konar öðrum aukefnum sem eru í sígarettum, en ég spyr: Hvar liggja fyrir tölur um hlutfall þeirra sem reykja í dag, færa sig í þetta skaðaminnkunarverkfæri og áhrifin sem þetta frumvarp mun hafa á ákvörðun þeirra um að færa sig? Hversu mörg mannslíf eru það annars vegar? Hins vegar spyr ég hvort það sé mögulega einhver hætta á að annað fólk færi sig yfir sem ekki notar nikótín en fer að taka inn nikótín í þessu formi og gæti mögulega farið að reykja sígarettur í ofanálag.

Annar hv. þingmaður kom í andsvari með tölur um hvernig þetta er að breytast, hvernig ungmennin eru í staðinn fyrir að reykja sígarettur farin að færa sig yfir í þennan vökva. Hvar hefur þingmaðurinn upplýsingar um hvað þetta kostar í mannslífum, þessi áhrif á annars vegar hegðun ungs fólks eða fólks sem er að færa sig yfir í „veip“, að fá sé nikótín þannig og hætta að færa sig eitthvað annað, og hins vegar að hætta að reykja, færa sig yfir í „veip“ og geta gert það m.a. innan húss (Forseti hringir.) sem er ákveðin auðveldun í því að neyta nikótíns sem er leið til þess að fólk noti frekar það en fara út í það, mannslíf?