146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

tóbaksvarnir.

431. mál
[17:52]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Það er nákvæmlega þetta, það er svolítið mikið með lagasetningunni hérna að við skoðum ekki til hlítar þau áhrif sem hún hefur. Áhrifin af tóbaksreykingum eru ótvíræð. Ef við erum ekki meðvituð um að hve miklu leyti við erum að fækka þeim sem ákveða að færa sig frá tóbaksreykingum yfir í „veip“ með þessu frumvarpi vitum við ekki hvaða áhrif það hefur á mannslíf. Þá vitum við ekki hvaða áhrif þetta hefur á lýðheilsu. Það er það sem vantar. Við eigum hérna að fara að taka ákvörðun sem gæti haft neikvæð áhrif á lýðheilsu þótt ég trúi því að allir hérna inni vilji hafa jákvæð áhrif á lýðheilsu. Við þurfum að fá þær upplýsingar. Það er nokkuð sem ég hvet velferðarnefnd til að fara ofan í saumana á. Þó að hv. þingmaður þekki fólk sem setur það ekki fyrir sig að fara út þekki ég fólk sem setur það fyrir sig að fara út, en það að þekkja fólk er náttúrlega ekki grundvöllur fyrir lagasetningu. Okkur vantar upplýsingarnar.

Ég kalla eftir því að velferðarnefnd fari ofan í saumana á þessu þannig að við séum ekki í ógáti að setja reglur í kringum eimvélar eða eimpípur — rafrettur eru líklega orðið sem á eftir að festast, það er stuðlað og hljómar ágætlega — sem á endanum hafa slæm áhrif á lýðheilsu.