146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

tóbaksvarnir.

431. mál
[17:53]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Sem fyrrum reykingamanneskja vorkenni ég fólki ekkert að þurfa að fara út að reykja. Ég reykti m.a.s. lengi, hafði ekki þetta tækifæri til að hætta, ekki einu sinni tyggjó. Í alvörunni held ég að við getum ekki beðið, þetta er orðin staðreynd. Þetta er nokkuð sem við búum við í dag og við þurfum að búa til einhverja umgjörð utan um það. Mér finnst ekki að við getum beðið þangað til það liggja fyrir einhverjar rannsóknir af því að þær geta tekið og sumar þeirra eiga að ná yfir langan tíma. Við getum tekið stuttar rannsóknir svo sem að tala við fólk, eins og ég segi, sem er búið að vera hætt að reykja og nota þetta í eitt, tvö, þrjú ár eða eitthvað slíkt, en við þurfum að fá eitthvert mengi sem notar þetta í tiltekinn tíma. Að mínu mati getum við ekki beðið þangað til þær niðurstöður liggja fyrir. Við þurfum að setja ramma um þetta.

Ég trúi því ekki að þetta hafi neikvæð áhrif á lýðheilsu. Við höfum gott aðgengi að þessu með lögum þannig að ég sé ekki fyrir mér að þessi lagasetning geti haft neikvæð áhrif á lýðheilsu fólks. Það má vera að þingmaðurinn sjái það með einhverjum hætti. Þetta er skaðaminnkandi verkfæri. Við getum keypt okkur þetta ef okkur langar til. Við getum hætt að reykja og nýtt okkur þetta, þ.e. farið úr hefðbundnu tóbaki yfir í rafrettur. Hvaða áhrif það hefur svo á þá sem það velja, hvort þeir nota þetta eins og ég sagði áðan, það er hættulegt samkvæmt rannsóknum að nota þetta saman, það eykur hjartaáfallshættuna o.s.frv., þannig að við þurfum líka að sjá. Verða margir sem bæta þessu við eða eru margir sem skipta alveg yfir? Hætta einhverjir, finnst þetta ekki koma í staðinn fyrir og fara aftur yfir o.s.frv.? Er það þá vegna þess að viðmiðunarmörkin okkar eru of lág? Það eru alls konar rannsóknir sem þurfa að fara fram.

Eins og ég segi held ég að við getum ekki beðið eftir því að allar rannsóknir liggi fyrir. Þær þurfa samt að eiga sér stað, það er alveg klárt mál, og ég vona bara að ráðherra setji það í gang.