146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

tóbaksvarnir.

431. mál
[18:11]
Horfa

Bjarni Halldór Janusson (V):

Herra forseti. Ég tek undir með hv. þm. Kolbeini Óttarssyni Proppé að það þurfi að finna einhvers konar meðalveg í þessu líkt og svo mörgu öðru í stjórnmálum. Ef við erum sammála um grunn til að byggja á, hvers vegna erum við þá að reyna að ganga enn lengra en við þurfum? Ég legg til að velferðarnefnd sem tekur málið til umfjöllunar byggi á þeim grunni og í samráði og með samvinnu getum við fundið einhverja leið sem ætti að höfða til allra. Við erum öll sammála um að við þurfum að gera eitthvað í þessu. Það er siðferðileg skylda okkar að gera eitthvað. Lagalega séð, og þetta er ábyggilega stærsti þátturinn, gengur núverandi umhverfi heldur ekki til lengri tíma litið. Lyfjastofnun hefur ekki gefið út markaðsleyfi fyrir sölu þessa tóbaksvökva, nikótínvökva. Að því er mér skilst er það forsenda þess að salan geti átt sér stað. Í rauninni er það enn einn punkturinn sem bendir til þess að við þurfum vissulega að halda áfram í þessu máli. Ég er einfaldlega hræddur um að þessi ágreiningur tefji málið það mikið að við náum ekki að komast að einhverri niðurstöðu, sem yrði þá lagalega séð slæmt. Ef við hugsum til þeirra grunnskólanema sem ánetjast þessu ávanabindandi efni þarf auðvitað að vera einhver rammi til að taka á því en það má þó ekki ganga of langt þannig að við torveldum eldra fólki sem er að reyna að hætta að reykja sígarettur að fara í einhver skaðaminni úrræði.

Ég legg til að lokum að velferðarnefnd skoði þetta vel og vandlega.