146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

tóbaksvarnir.

431. mál
[18:38]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka svar hv. þingmanns. Þetta með nikótínið og skaðsemi þess er einmitt eitt af því sem er svolítið verið að takast á um í fræðasamfélaginu. Ef ég drep niður í aðra grein eftir lækninn Guðmund Karl Snæbjörnsson, sem ber yfirskriftina „Rafrettur: hræðslublaðran sprengd“, kemur þar fram að neysla nikótíns með rafrettum sé nánast skaðlaus miðað við að neyta nikótíns í sígarettum sem drepur einn af tveimur notendum í stærra samhengi. Það kemur fram í greininni að skaðsemi sjálfs nikótínsins í rafrettunni sé á pari við kaffineyslu. Ég sel það ekki dýrara en ég kaupi það í greininni en vildi nefna, eins og við höfum mörg komið inn á, að þessi umræða er víðfeðm, það eru þarna rannsóknirnar sem stangast ekki beint á. Þó að ég ætli í lokin að taka undir með hv. þingmanni um að auðvitað verðum við að passa okkur á því að vera ekki að normalísera ákveðna hegðun langar mig að vísa aftur í fyrri ræðu mína um þetta mál í dag, en ég tel líka brýnt að við förum ekki á mis við stórkostlegt tækifæri til að normalísera miklu, miklu skaðminni hegðun, þótt ekkert sé fullkomið. Að öðru leyti þakka ég fyrir.