146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

tóbaksvarnir.

431. mál
[18:39]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni seinna andsvarið. Varðandi nikótínið hef ég líka lesið það sem Guðmundur Karl Snæbjörnsson hefur haldið fram en ég verð að segja að ég er ekki alveg sammála honum. Nikótín er sterkt ávanabindandi efni og er flokkað þannig til að mynda hjá Umhverfisstofnun. Nikótín getur sem dæmi skaðað fóstur, ef móðir neytir nikótíns í einhverju formi á meðgöngu. Það getur meira að segja valdið varanlegri þroskaskerðingu. Nikótín er ekki venjulegt efni sem hægt er að segja að sé allt í lagi að hafa svolítið af. Við vitum ekki nákvæmlega hversu mikið af nikótíni viðkomandi neytir. Ég held því að við ættum að halda áfram að lúta þeim lögmálum sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur verið að mæla með og varða nikótín og neyslu þess. Nikótín er ekki skaðlaust. Því held ég að betra sé að fara varlega af stað en að fara af stað án þess að hafa umgjörð og reglugerð í kringum þessa neyslu. Ég held að það sé vænlegra, sér í lagi þegar kemur að því áhrifaríka og mikla forvarnastarfi sem hefur verið unnið á Íslandi síðustu árin sem varðar tóbak og áfengi.