146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

tóbaksvarnir.

431. mál
[18:42]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að hér sé komin fram íslensk þýðing á að sögninni að „veipa“, sem ég hef einmitt verið að tala um við aðra þingmenn hér í hliðarsölum að vanti í þessa umræðu. En gufarar er ágætt orð. Ég held mig bara við það sem hv. þm. Björn Leví kom hér fram með.

Varðandi óbeinar reykingar er í þessu frumvarpi lagt til að sömu reglur gildi um heimildir til notkunar rafsígarettna og gilda um annað tóbak. Án þess að ég hafi komið að samningu þessa frumvarps myndi ég halda að á meðan verið er að rannsaka nánar afleiðingar þessa og við vitum ekki hvort gufarar noti gufu sem fyllt er með nikótíni eða ekki, sé betra að girða fyrir óbeinar reykingar inni á þeim stöðum sem um getur í frumvarpinu; í grunnskólum, á leikskólum, í húsakynnum sem ætluð eru til félags-, íþrótta- og tómstundastarfa barna og unglinga o.s.frv. Ég tel það skynsamlega leið á meðan við bíðum eftir frekari niðurstöðum sem ber að sama brunni, þ.e. að skaðsemi gufunnar frá rafsígarettum sé nákvæmlega sú sama og sá reykur sem kemur úr venjulegum sígarettum ef hún inniheldur nikótín.