146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

tóbaksvarnir.

431. mál
[18:47]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingar á lögum um tóbaksvarnir, þ.e. um rafsígarettur. Áður en ég held áfram máli mínu ætla ég að geta þess að ég er frekar hlynnt því frumvarpi sem hér um ræðir, þ.e. því að skýra rammann í kringum notkun á þessum vörum, rafsígarettunum. Eins og fram kemur í frumvarpinu er markmið laganna að draga úr heilsutjóni og dauðsföllum af völdum tóbaks, m.a. með því að stuðla að samdrætti í neyslu tóbaks og vernda fólk fyrir áhrifum tóbaksreyks. Þar kemur jafnframt fram að unnið skuli gegn tóbaksnotkun og neyslu nikótíns í rafsígarettum meðal ungs fólks. Hér er ekki verið að banna rafsígaretturnar eins og hávær umræða var um þegar málið var kynnt fyrst; fréttaflutningurinn fjallaði talsvert um að hæstv. heilbrigðisráðherra hefði ætlað sér að banna notkun á þessum vörum. Svo er ekki, hér er eingöngu verið að skýra rammann utan um þessa vöru, sem er mjög algeng í samfélaginu, þar sem skýr löggjöf er ekki til.

Með frumvarpinu á að setja skýrar reglur um heimildir til sölu, markaðssetningar og notkunar á rafsígarettum og áfyllingarílátum. Einnig er mælt fyrir um eftirlit með innflutningi, dreifingu og sölu á rafsígarettum og áfyllingarílátum til að tryggja viðhlítandi öryggi þessara vara á markaði. Notkun þessarar vöru hefur aukist ört hér á landi eins og fram kemur í greinargerð. Ég þekki fjölda einstaklinga sem nota rafsígarettur í dag og hafa notað þær til að minnka sígarettunotkun sína, sem leið til að hætta að reykja. Árangurinn er jafn misjafn og einstaklingarnir eru margir. Ég er hlynnt ramma í kringum þessa vöru og tel nauðsynlegt að rannsakað sé frekar hvaða áhrif notkun rafsígarettna hafi á einstaklinga.

Með breytingu á lögum um tóbaksvarnir, sem lögð er til með frumvarpinu, er nú fyrst veitt almenn heimild fyrir innflutningi, dreifingu og markaðssetningu á rafsígarettum og áfyllingarílátum hér á landi. Í greinargerð kemur fram að samkvæmt núgildandi lögum sé óheimilt að selja áfyllingarílát sem innihalda nikótínvökva. Til að bregðast við þeim vaxandi markaði sem skapast hefur er í frumvarpinu lagt til að settar verði reglur um heimild til sölu, markaðssetningar og notkunar á rafsígarettum. Jafnframt kemur fram að mikill árangur hafi náðst hér á landi í tóbaksvörnum síðastliðin ár, sér í lagi hjá ungu fólki. Eins og fram kom í máli hv. þm. Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur gerist forvarnastarfið ekki af sjálfu sér, heldur er um að ræða mikla vinnu margra aðila. Við getum nefnt skólasamfélagið, lýðheilsusamfélagið, foreldra, heimili og skóla og ýmsa aðra sem hafa tekið höndum saman til að ná þessum árangri. Því verður maður að minnast á að það starf gerist ekki af sjálfu sér en góður árangur hefur náðst og því fögnum við.

Það meginsjónarmið var haft að leiðarljósi við vinnu frumvarpsins til að sporna við aukinni tóbaksnotkun hér á landi, sérstaklega meðal ungs fólks, og auk þess að koma í veg fyrir að fólk ánetjist nikótíni. Eins og fram hefur komið í ræðum hv. þingmanna, og í umræðunni í samfélaginu og í fréttaflutningi, hafa mjög ólík sjónarmið komið fram, m.a. frá sérfræðingum og læknum. Þau sjónarmið eru allt frá því að notkun rafsígarettna sé skaðlaus leið fyrir einstaklinga til að hætta að reykja yfir í að slík notkun verði til þess að einstaklingar leiðist út í tóbaksreykingar eða aðra tóbaksnotkun. Jafnframt kom fram í máli hv. þingmanna sem hér hafa talað að í lok september var haldin ráðstefna um þessi mál. Þar var læknir og fræðimaður frá Krabbameinsfélaginu og þar voru mjög ólík sjónarmið reifuð, þrátt fyrir að um tvo fræðimenn sem starfa þarna væri að ræða. Þar var læknir og sérfræðingur í heimilislækningum — ég gleymdi að skrifa hjá mér nafn hans — sem benti á að erlendar rannsóknir sýndu að rafsígarettur séu 95% öruggari heilsu okkar en hefðbundnar sígarettur og ekki séu efni til staðar í rafgufu sem valdi heilsutjóni eða hafi krabbameinsvaldandi áhrif og ekki séu þekkt skaðleg áhrif að innihaldi vökvans. Óljóst sé — takið eftir, það er óljóst — með skaðleg áhrif af einstaka bragðefnum og því sé 5% fyrirvari á hættunni. Þessi læknir taldi að rafsígarettur væru ekki hollar og ekki fyrir þá sem ekki reykja en tók fram að þær væru miklu skaðlausari en sígarettur, að öll þau eiturefni sem eru í sígarettunni sem drepa fólk hafi verið tekin út í þessum vökva.

Þó kemur fram í greinargerð með frumvarpinu að rafsígarettur séu fremur ný vara á markaði og langtímarannsóknir sem varpi ljósi á möguleg áhrif af notkun þeirra skorti. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur lagt áherslu á að ríki setji sömu reglur um rafsígarettunotkun og gilda um tóbaksreykingar þar til sýnt hafi verið fram á skaðleysi varanna. Tekur frumvarp þetta að miklu leyti mið af þeirri afstöðu stofnunarinnar. Ég tel það mjög skynsamlegt á meðan við höfum ekki þá vitneskju sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin talar um í ritum sínum og greinum; á meðan við vitum ekki um skaðsemina þurfum við að stíga varlega til jarðar. Ég fagna því mjög frumvarpinu sem við ræðum hér.

Á þessari ráðstefnu talaði einnig Lára G. Sigurðardóttir sem er fræðslustjóri Krabbameinsfélags Íslands. Hún sagði frá 38 rannsóknum sem sýnt hafa að reykingamenn sem notuðu rafsígarettur væru 28% ólíklegri til að hætta að reykja óháð því hvort þeir hefðu áhuga á því eða ekki. Í máli hennar kom fram að 90% þeirra sem reyna að hætta að reykja með rafsígarettum tekst það ekki. Hún vildi meina að rannsóknir hefðu verið rangtúlkaðar í fjölmiðlum þar sem því hefur verið haldið fram að rafsígarettur valdi niðursveiflu í reykingum. Hún segir engin merki vera um að rafsígarettur tengist lækkun á tíðni hvað varðar daglegar reykingar. Þarna sjáum við þessi ólíku sjónarmið og þá ólíku umræðu sem er í samfélaginu, sumt stafar kannski af þekkingarleysi. Við vitum ekki nákvæmlega hvaða áhrif þetta hefur. Lára G. Sigurðardóttir, fræðslustjóri Krabbameinsfélags Íslands, sagði jafnframt á áðurnefndri ráðstefnu að nikótín væri sterkt ávanabindandi eiturefni og sé flokkað þannig hjá Umhverfisstofnun. Þetta kom jafnframt fram í máli hv. þm. Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur áðan. Þess má til dæmis geta að fóstur sem neytir nikótíns í einhverju formi á meðgöngu getur orðið fyrir varanlegri þroskaskerðingu. Lára benti á að samkvæmt bandarískri rannsókn hefðu tveir þriðju hlutar þeirra sem sögðust nota rafsígarettur einnig reykt. Einnig nefndi hún að sjö krabbameinsvaldandi efni ásamt öðrum skaðlegum efnum hefðu fundist í rafsígarettum. Í þeim væri heldur engin vatnsgufa eins og ranglega hefði verið haldið fram og að nikótínmagnið í þeim væri oft meira en gefið væri upp. Hún sagði rannsóknir hafa leitt í ljós að unglingar sem nota rafsígarettur séu líklegri til að leiðast út í sígarettureykingar og að ef unglingar sjá auglýsingar um rafsígarettur séu þeir líklegri til að prófa þær.

Eins og ég hef margsinnis sagt í ræðu minni eru mjög ólík sjónarmið uppi um þetta mál. Ég tel mjög mikilvægt að þetta verði rannsakað enn frekar, að við setjum ramma utan um þessa vöru, sem er engin venjuleg neysluvara, og höfum hlutina á hreinu. Ég verð líka að lýsa ánægju minni með að ekki sé verið að banna þetta en að löggjöfin utan um þetta sé skýr og að til sé löggjöf. Við vitum að í ákveðnum tilvikum hafa þessar vörur hjálpað reykingafólki til að hætta að reykja, þó ekki í öllum tilfellum. En ég vil spyrna við fótum gegn því að börn sem reykja ekki fari að líta á reykingar slíkra sígarettna sem samþykkta hegðun, þ.e. að slíkar reykingar séu sjálfsagðar og að allir eigi að prófa þær.

Í frumvarpinu er lagt til að um rafsígarettur gildi sömu reglur, hvað varðar sölu og markaðssetningu, og gilda um tóbak samkvæmt gildandi lögum. Þar er talað um að viðhlítandi merkingar þurfi að vera á umbúðum rafsígarettna og áfyllingaríláta. Lagt er til að nýju ákvæði verði bætt við 6. gr. laganna þar sem fram kemur að óheimilt sé að hafa á umbúðum tóbaks og rafsígarettna eða áfyllingaríláta texta eða myndmál sem geti höfðað sérstaklega til barna og unglinga, m.a. myndskreytingar eða slagorð sem geti hvatt til neyslu tóbaks eða rafsígarettna, og að bannað verði að auglýsa rafsígarettur og áfyllingarílát. Einnig er talað um að sömu reglur gildi um notkun rafsígarettna og um annað tóbak, að óheimilt verði að nota rafsígarettur í þjónusturýmum stofnana, fyrirtækja og félagasamtaka, að óheimilt sé að neyta þeirra á skemmtistöðum og svo er talað um íþrótta- og tómstundastarf, grunnskóla, vinnuskóla og leikskóla. Ég tel mjög brýnt að þetta sé skýrt.

Málið mun að öllum líkindum ganga til hv. velferðarnefndar. Þar munum við taka umræðuna um þetta mál, allir þeir hv. þingmenn sem þar eru. Að lokum vil ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir að leggja þetta mál fram. Það verður gott og fróðlegt að vinna með það í hv. velferðarnefnd.